Félag maraþonhlaupara

Maraþonhlauparar á Íslandi

Bára í Búdapest 2003

Ljóðræn tínsla minningarbrota Báru
af orrustunni á maraþonvöllum Búdapestar,
bundin til að týnast ekki undir tímans tönn…

Í einhverjum ærðum vitleysisgangi sem áskapast í sveittri sæluvímu þess sem á að baki vel heppnað langhlaup, einsetti ég mér það sumarið 2000 að „safna borgum“… Þetta var í þessa einstaka sigurhrósi sem fylgir fyrsta hálfmaraþoninu, þar sem skandinavísku borgirnar Köben og Malmö voru „bræðralagaðar“ með Eyrarsundsbrúnni af slíkri snilld að hrifning mín útfærði hana á eigin máta og úr varð ásetningur um að upplifa heilt eða hálft maraþon í nýrri borg á ári hverju, í anda þess að ekki fór á milli mála þennan dag að dæleg, dönsk Kaupmannahöfnin var talsvert annars lags en hin stællega, sænska Malmö. Í kringum funheitan og sársaukafullan tuttuguastaogfjórða kílómetra Búpapestarmaraþonsins þegar halla tók fótafiminni, varð mér hugsað til þessara ráðagerða minna, sem ég einhverra hluta vegna hef hlýtt af einskærri samviskusemi þess sem aldrei vill bregðast og ollið því að Prag er að baki, London, Reykjavík og nú síðast Búdapest. „Sem betur fer þarf þetta ekki að vera maraþon, þetta borgarsöfnunarvesen á mér, hálfmaraþon er meira en nóg… þetta geri ég ekki aftur… aldrei aftur… á bara ekki við mig svona löng vegalengd… hálfmaraþon verður það lengsta sem ég hleyp hér eftir… ég geri þetta aldrei aftur…„. Slíkar hugsanir ásóttu mig beggja vegna Dónár það sem eftir leið hlaupsins og tóku á sig mynd hreinna yfirlýsinga að maraþoninu loknu og festust loks á filmu föður míns með þeim afleiðingum að ég gat ekki bara skilið þær eftir í svitastorknu grasinu austan tjalds til að skolast niður með rigningu nýrrar tíðar og betri tíma…

Trumbuslátturinn við marklínuna á glæstu hetjutorgi Búdapestar þennan sunnudagsmorgun verður eitt þessara fullkomnu augnablika sem Búdapest gaf og engin önnur. Slátturinn hljóp svo í okkur Helgu Björku að við stilltum okkur upp með fremstu mönnum og skríktum yfir eigin ofur-sjálfs-(ranghug)-mynd við að vera svona framarlega en ypptum öxlum yfir plássleysinu aftar í röðinni og gleymdum allri slíkri hógværð við ærslin í „okkar mönnum“ sem slógu á bak hver öðrum eins og skólastrákar sem kýla í axlarvöðva hvers annars svo undan „eymir“. Þessar síðustu mínútur slógum við stelpurnar tvær hins vegar alls ekki hvor aðra frekar en telpna er siður, heldur seiðandi takt slagaranna með höndum og fótum eins og bergnumdar, svo upp úr stendur líklega hið fegursta augnablik maraþonsins. Það var líkt og magnaður takturinn töfraði fram alla kílómetrana og kraftinn sem safnað hafði verið í sarpinn síðustu vikurnar svo af hlyti að hljótast fossandi frammistaða á brautinni fyrir fótum vorum fráum. Tilfinningin líktist því að geta loksins staðið upp frá bókalestri og lagt af stað í próf, svo stútfull lesin að aðalbaráttan yrði óðamælgi fremur en ritstífla … en, nei, örlög okkar reyndust ekkert í líkingu við slíka fullkomnun… framundan var nefnilega meiri þæfing, þorsti, þjáning og þolraun en nánast nokkurt okkar Íslendinganna gat hafa undirbúið sig undir…

Enn undir áhrifum af trumbuslættinum hljóp ég minn heittelskaða uppi fyrstu hundruð metrana í einskærum prakkaraskap þess að vilja slá rómantísku höggi á gluteus maximus vöðvann sem ég átti ótvírætt tilkall til ólíkt „ástandinu“ í Prag forðum daga (fyrir þá sem það muna…). Með þessu kjánapriki þurfti ég að skáskjóta mér af mikilli ákveðni og nákvæmni framhjá ofurhröðum hlaupurum og fékk hrópandi aðfinnslur frá íslensku snillingunum sem skildu ekkert í asa stúlkunnar frá landinu sínu. Örn lét sér hvergi bregða í einbeitingu sinni og flissaði að þessu uppátæki mínu löngu síðar, en óskaði mér hins vegar góðs gengis af sinni fágætu alúð svo betra veganesti gat ég ekki verið búin þarna á fyrstu metrunum eftir ærsli, kæti og læti…

Nestið sem ég hafði búið mér fyrir átök dagsins skyldi gefa mér tempóið 4:40-4:45 á kílómetrann og var ég óhikað og yfirlýst búin að ætla mér um 3:20 í einlægri hógværðinni, en villtasti metnaður minn gældi laumulega við töluna 3:16 án þess að viðurkenna það fyrir hinum. Að baki lágu að meðaltali 68km á viku síðustu 14 vikurnar, þar af tvisvar sinnum nákvæmlega 100km á viku og einu sinni 103km, en þvílíkt kílómetramagn hafði ég aldrei fyrr fótum fetið. En…það merkilega var að eftir þessa reynslu reyndist maraþon eins og ferðalag, þrátt fyrir fyrirfram ákveðna leið, skilgreindan upphafsstað og endastað, ítarleika við skipulagningu, forsjálni við undirbúning og vandvirkni við framkvæmd… getur bókststaflega allt gerst á leiðinni… fyrirséð (hitinn), grunað (vökvatap), óttað (eftirgjöf), óvænt (úramálið), óvart (gel-klúðrið) eða jafnvel óhugsandi (3:27:30)… enda lætur hógværðin ekki að sér hæða…

Þrátt fyrir góða reynslu af klemmum með frönskum rennilás fyrir gelpoka í mínum tveimur fyrri maraþonum, tókst mér að klúðra þessari ágætu tilhögun með því að kaupa einhvurn hraklegan, franskan rennilás í Hagkaupum sem fipuðu mig svo illilega að ég var skjálfhent farin að líma gróft við gróft án þess að taka eftir því fyrr en Sigurjón benti mér sakleysislega á rétt fyrir hlaupið, svo ég stóð uppi með tvö gel í lófunum við upphaf hlaups, þar eð þau tolldu ekki á klemmunum. Í svitarennslinu sem fyrstu metrarnir niður Andrassy-breiðgötuna gáfu gjöfullega af sér strax í upphafi við allavega 17 gráðu hita, losnuðu tveir til viðbótar og það var því ekki fyrr en eftir 20km sem ég gat loks notið frírrar loftunar milli fingra og lófa. Bara svitamyndunin við að halda á gelpokunum í lófunum alla þessa leið, hefði gefið mér nokkra sopa af dýrmætu saltvatni ef ég hefði haft vit til naumhyggju eða smáskömmtunar. Þess í stað átti ég fullt í fangi með að halda gelpokunum ofar jörðu sem ólmir syntu ótt og títt í svitabaði lófanna og reyndu jafnvel að stinga sér niður á götur Búsapestborgar, í stað þess að horfast í augu við þau örlög sín að vera étnir af mér á 5km fresti. Auk þess að vera „náttúrulega blæðandi“ var þetta óhjákvæmilega eitt af þremur verkefnum maraþonsins sem mér voru persónlega fengin til viðfangs af æðri máttarvöldum og alveg í takt við skyndilegt „blackout“ hlaupaúrsins míns daginn fyrir hlaupið, sem olli því að í stað þess að vera samferða hinum í afhendingu keppnisgagna og pastaveislu þustu ég, Örn og pabbi með leigubíl í fínasta moll borgarinnar á síðustu klukkustund opnunartímans á laugardegi til að kaupa nýja rafhlöðu. Þar var gengið úr hverri gljáðri úrabúðinni í aðra enn íburðarmeiri með óminn „no, no, don´t know of any shop with batteries“ í eyrunum, þar til loks fannst ungverskur úrsmiður sem ég hefði gert moldríkan fyrir að setja rafhlöðu í úrið mitt… rafhlöðu sem á dularfyllstan háttinn vildi ekki kveikja á úrinu mínu, svo ég endaði með að kaupa mér einhvern veginn úr með tímamæli sem ég greiddi fyrir að ungverskum sið, enda runninn af mér allur fjálglegur feginleikur með stríðum straumum streitusvitans sem rann óslitið af áreynslu við að mæna á smiðinn berjast árangurslaust og óralengi við að setja rafhlöðuna í gamla úrið mitt. Í skjálfandi adrenalín-eftirköstum úra-ævintýrisins æddum við í neðanjarðarlestina til að missa nú ekki alveg af Íslendingunum og pastaveislunni, en líklega rann hann á angistarlyktina af okkur, samviskusami, ungverski lestarstarfsmaðurinn sem var við það að fangelsa okkur fyrir að skilja ekki að við gleymdum að stimpla lestarmiðann okkar í hliðarlausu neðanjarðarlestarkerfi Ungverjalands. Fyrir sjálfri mér útskýrði ég þessa þrennu þröskulda síðustu klukkustundirnar fyrir maraþonið, á þá leið að örlögin hlytu að ætla þessum uppákomum að þjóna sem hollri upphitun fyrir gjöfult flæði adrenalíns og svita í maraþoninu sjálfu og ýtti ég frá mér af fremsta megni illum grun um að hugsanlega væru brunnar þeir tæmdir eftir öll ósköpin…

Ég þáði félagsskap Sigmundar frá Selfossi fyrstu kílómetrana en kraftur hans var slíkur að ég fylgdi honum hvorki við talmál né fótmál þegar á leið. Ég naut góðs af samviskusamlegum lap-tímamælingum hans sem áttu örugglega sinn skerf í að renna honum í mark á 3:23 og kenndu mér að nýmælast til slíkrar tæknivæðingar í mínu næsta maraþoni, ekki eingöngu sakir augljóss aðhalds meðan á hlaupi stendur, heldur og sakir ylsins af minningunum sem tákngerast í tölur og verða minnisvarðar liðinnar þjáningar er segja meir en þúsund orð á tungumáli sem eingöngu langt gengnir hlauparar skilja. Þetta er náttúrulega hin bráðsmitandi talnasýki hlauparans sem Sigmundur smitaði mig af þarna, þökk sé honum…

Við 10 kílómetrana var ég fallin fyrir hendi hitans og hörfaði frá líkamlegum að huglægum vígstöðvum maraþonhlauparans sem æskilegast hefði þó verið að heyja eingöngu lokakaflann á. Ég hóf að sannfæra sjálfa mig um að ég þyldi nú hitann vel, 46mín væru samkvæmt áætlun en saug samtímis laumulega svitann upp í nefið af ómeðvitaðri eða afneitaðri vökvaþörfinni sem svo sannarlega læddist leynt en óþyrmilega að. Ennþá drukkin af hegómlegri sjálfsánægjunni við að heyra nafnið mitt og Ísland kallað upp í hátalarakerfinu (og af Sigurjóni, eðal-hlaupara) við 12 kílómetrana, þar sem pabbi og fleiri Íslendingar luku fyrsta kafla boðhlaupsins, barðist ég við að hafa Sigmund í sjónmáli, vitandi innst inni að hann hélt sig agað lítið eitt innan við tempóið sem ég átti að vera á, en minnir að þarna hafi hann sárlega horfið mér endanlega sjónum. Við 15 kílómetrana lagði minnið fram kröfu um tímann 1:10 en sveitt höndin bauð mér upp á töluna 1:08 svo hugar-krafta-karlarnir mínir (Bárungar, svokallaðir), sigrihrósuðust áfram í draumum sem eru roðafengnir skömm í ljósi endanlegrar marktölu minnar…

Hugarorrustan var mér enn í hag við hálfmaraþonmarkið á 1:37 eftir notalega og skuggsæla Margrétareyjuna, en það var eins og allt breyttist eftir þetta. Skyndilega var sársauki kominn í lærvöðva og kálfa og kílómetrarnir urðu krefjandi í stað auðsigrandi. Á þessum langdregna kafla upp eftir ánni dreif fyrsti íslenski karlmaðurinn af þremur fram úr mér á aðdáunarverðum hraða. Halldór í NFR þarna á ferð í sínu fyrsta maraþoni og ég hugsaði að einhvern veginn hefðu hans „Dórar“ tekist að vígbúast hugrænum hitahlífum sem ekkert biti á enda dugðu þeir honum til draumamarktölunnar minnar, 3:20. Bárungar mínir virtust þó áfram njóta meðbyrs sem fleytti mér að 30km markinu á 2:22:22, fegurstu tölu hlaupsins, sem mér varð svo starsýnt á í barnslegri gleðinni að ég hnaut næstum um þessar hliðstæður á úrinu og hefði ég þá kylliflest á búdapeska stéttina sem hefði verið mitt síðasta afrek í maraþoninu. Glýjan minnti mig á fegurð tölunnar 1:41:41 sem úrið í markinu í Prag gaf mér 2001, svo þarna var komin viðbót í „safn ógleymanlegra talna í hlaupum“ og Bárungarnir hófu þegar að sjóða vopn úr þessum skemmtilegheitum sem dugði þó furðulega skammt, enda síðustu flugbeittu 12 kílómetrarnir sterkasta vopn andstæðingsins…

Fyrsta bragð mótherjans míns (þ.e. „maraþonninn“ sjálfur; kk.et.nf) á síðasta kvarthluta baráttunnar var að leggja það á auma mjaðmaliðina að snúa sér enn einu sinni 180 gráður upp af Gellert-brúnni þar sem ég hreinlega stöðvaðist nánast við sársaukann eins og að ganga á vegg og ég mátti endanlega vita að súludans væri ekki mín sterkasta grein, þó ég væri farin að öðlast lagni við að halda í ljósastaurana maðan á snúningnum stóð. Þessir viðsnúningar voru allt of margir í hlaupinu enda blæddu liðirnir líklegast undan þeim en samtals snerum við á að giska. sjö sinnum 180 gráður, einu sinni 270 gráður að ótöldum hefðbundnum 90 gráðu beygjum sem eru þær einu viðunandi í maraþonhlaupi að mínu mati. Ég var líklegast orðin eldrauð við að sótast út í þennan súludansstíl þeirra Búdamaraþonmanna og við að agnúast út í ójafna brautina þeirra sem var mér af smámunasemi yfirgengilegrar þreytu, farið að finnast eins og argasta hindrunarhlaup yfir sprungur í malbikinu, djúp hjólför og önnur ellimerki fornrar borgarinnar… þegar Stefán Örn skaust fram úr mér á fljúgandi fart með allt aðra sögu en ég; …honum „leið vel„, var virkilega að „fíla sig“ og var bara að „auka hraðann“ si sona á þessum síðustu og verstu tímum…! Orkumikill og hvetjandi rúllaði hann þarna framhjá mér, en ég var eitt nokkurra „fórnarlamba“ áður en yfir lauk hans glimrandi endaspretti á 3:22. Af herkænsku hugarstríðsins er gætir þess að láta svona framúrhlaup gagnast sér fremur en letja, reyndi ég af sömu natni og áður að ekki eingöngu samgleðjast heldur og hafa mér skjótari menn í sjónmáli eins lengi og unnt væri í veikri von um að vera nógu nálægt ef ske kynni að einhverjir afgangs orkudropar drjúpi af þeim og slettist á mig… dropar sem Bárungarnir myndu svo af þroska nýta sér sem uppsprettu orkugjafa. Ferskleiki Stefáns Arnar skvetti nefnilega hressilega á alla sjálfsvorkunn og minnti mig á að maraþonvellirnir væru í alvöru yfirstíganlegir og ekki verðir uppgjafar sem farin var að ljóma og lokka í hillingum freistaranna…

Tíminn 2:22:22 við 30 kílómetra markið þýddi 3:20 í mark sem var samkvæmt áætlun, en á þessum 12 km sem á eftir komu beið ég nánast bana í lokaorrustunni og maraþonninn náði að afvegaleiða mig illilega um rúmar sjö mínútur. Ég sló þarna met lífs míns í að fara frá plani A (3:16), yfir á plan B (3:19), yfir á plan C(3:20), yfir á plan D(3:22), yfir á plan E(3:24) yfir á plan F (að bæta mig) sem þýddi nánast Fall því bæting upp á tvær og hálfa mínútu var minna en (æfinga-, væntinga-)-lög gerðu ráð fyrir. Á þessum lokakafla var skæðasta hugarstríðið háð með síðustu blóðdropum ákveðni, þrjósku og viljastyrks en öll þau þrjú vopn voru vel lemstruð og aðframkomin eftir að hafa verið kölluð til leiks á tíunda kílómetra sem var sannarlega allt of snemmt miðað við fyrri reynslu af maraþoni. Líkaminn var löngu búinn, hann vældi bara eins og ódæll krakki eftir meira vatni þrátt fyrir þrjú glös í senn á síðustu þremur drykkjarstöðvunum. Hvernig gat ég verið svona þyrst strax á fyrsta kílómetranum eftir drykkjarstöð þar sem ég hellti ofan í mig þremur glösum? …tveimur glösum meir en ég hef nokkurn tíma drukkið á drykkjarstöð í keppnishlaupi? Var það þetta sem hann meinti strákurinn sem otaði föðurlega einbeittur að mér öðru vatnsglasi á Margrétareyjunni svo ákveðið að ég varð nánast að hrinda honum harkalega frá mér? Að ég ætti að drekka aðeins meira en hálft glas með gelinu þegar ég fór þar í gegn á 17. kílómetranum? Svakalegt var þetta, að þyrsta svona sárt stuttu eftir drykkjarstöð, dauðsjá eftir að hafa ekki drukkið meira, spyrja áhorfendur um vatn og fá ekkert, ekki einu sinni hjá konunum sem virtust vera frá Rauðakrossinum, en eftir á að hyggja voru líklega bara með einhvern fána sem líktist hvítu og rauðu gegnum svitamóðu augna minna. Nei, á líkamann var ekki lengur að treysta, Bárungarnir báru mig þessa síðustu 12 kílómetra og reyndu að tjónka við óþekkan líkamann sem í lífeðlisfræðilegri einfeldni sinni kallaði bara á meira vatn og var gjörsamlega orðinn skilningssljór á það að hér var háð háalvarleg orrusta við maraþoninn sjálfan. Orrusta sem hafði verið vel undirbúin og mikill metnaður lá að baki, orrusta sem óhugsandi var að tapa meðan beljandi bölmóður minn bærði enn á sér…

Tvennt tekst mér að tína til úr vökvaskertum, sykurlausum og meðvitundarlitlum minningarbrotum lokaorrustunnar, en slíkar eru andstæður þeirra að réttast ber að lýsa þeim sem meðbyr og mótbyr. Ógleymanlegan meðbyrinn fékk ég með faðmlagi, kossi og orðunum „Bára, I love you“ frá Bigga, rauðserknum sæmda, sem geystist fram úr okkur flestum áður en hann gaus eldrauður, funheitur og nautsterkur inn marklínuna á 3:22, einum glæstasta árangri Íslandssögunnar, en vita skulum við að tæplega sextugur maðurinn á hvergi nærri jafn skipulegan, þjálfaðan né uppstrílaðan undirbúning að baki og við flest hin, né jafnmörg árin að burðast með alla leiðina. Mótbyrinn fékk ég frá parinu sem skokkaði léttilega, eiginlega í alvöru letilega, framhjá mér með 3:30-gasblöðruna gulu og þjónuðu mér sem algert niðurbrot, því þessi tala átti ekkert erindi við mig og ég skildi bara ekkert í henni, þar sem úrið mitt lofaði mér fremur tímanum 3:25 en 3:30. Ég gleymdi mér í máttlitlum heilabrotum um þýðingu blöðrunnar a tarna og Bárungum tókst að snúa þessu herbragði andstæðingsins í sókn, með því að nýta blöðruna sem skjöld fyrir efasemdum um að ég væri á réttri leið, því svo sannarlega var uppþornaður heilinn hættur að sjá brautina, fannst hann miklu fremur ráfa um eyðileg og skuggaleg stræti Búdapestar, grunsamlega oft yfir gangstéttarbrúnir og fyrir horn eyðilegra gatnamóta svo allt eins gat verið að þessar strjálu skuggamyndir mannveranna kringum mig væru í sunnudagsskokki en ekki mannmörgu maraþoni í stórborg. Á skelfilegan máta staðfestist staðreyndina um að ég væri á maraþonvöllunum sjálfum þegar sífellt fóru að blasa við fleiri karlmenn á alla bóga sem hrundu niður í götuna eða til hliðanna af örmögnun, krömpum eða uppgjöf. Þetta var vígvöllur hlauparans í sinni sárustu mynd og ég velti því fyrir mér í óttablandinni undrun hvers vegna ég þjarkaði sífellt uppistandandi en ekki staulandi til hliðanna… líklegast var yfirgengilegu gelmagninu hennar Mörthu fyrir að þakka, þar hafði ég ekki verið óhlýðin þó skamma hefði mátt mig sólarhrings langt fyrir drykkjuleysið…

Við 40km markið blöstu í fjarlægð kokhraustar styttur hetjutorgsins við sýn stúlkunnar sem í engu skartaði hreysti né hetjuskap, heldur vermdi sér líkt og í hægu andláti eins og litla stúlkan með eldspýturnar, við uppörvunarorð samlanda sinna fjögurra er lögðu hana að velli í kapphlaupinu, en greiddu um leið leið hennar með fyrirmyndarskap sínum. Hugaröflin tvíefldust við sjónræna staðreyndina um seilingarfjarlægð lokamarksins, en undarlegt nok þá voru þessir rúmu tveir kílómetrar þeir lengstu allra þrátt fyrir hvetjandi hrópin og lokkandi lúkningu marksvæðisins. Réttmæti óbærilegrar lengdar þessara 200 metra að loknum 42 kílómetrum er mér enn til efs, slík var reikug rökhyggjan við uppþornun líkamsvessa og uppgufun heilafrumna á lokametrunum, svo enn berst ég í minningunni við að halda að þetta hljóti að hafa verið 400 metrar. Bárungarnir tókust þegar sæluhátt á loft við vinalegt tístið í flöguvélunum sem lýstu því yfir að mér leyfðist að nema staðar sem sigurvegara maraþonvalla þetta sinnið. Mér hafði tekist að þenja mig þriðja sinnið í sögu minni án þess að falla nema þá bara sigrihrósandi og guðs lifandi fegin og þakklát beint í lungamjúkt gras Ungverjalands, þar sem bestu drykkir og nasl nokkurn tíma tjösluðu sál og skrokk saman af slíkri snilld að þessi hálfi lítri bjórs sem var í poka maraþonsins ógnaði heiðurssæti besta bjórsins ever í Prag forðum daga sem svolgraðist þá ógleymanlega niður um salta og illa þefjandi Íslendingana í klístruðum hlaupagöllunum inni á fína restaurantnum kenndum við Reykjavík.

Að marklínunni lokinni blöstu strax við mér úrvinda andlitin á Erni mínum og Gauta Höskulds sem báðir sögðu mér ruglingslega samhljómandi marktölurnar sínar; Örn á 3:10 og Gauti á 3:0:10. Ívar hafði verið þeirra fyrstur á 2:57…gulldrengirnir þrír sem allir áttu að komast vel undir þrjá tímana ásamt Baldri, höfðu legið í valnum og barist liggjandi eins og ég síðustu kílómetrana. Þetta var eins og bergmál… þrjár og tíu, og nei, þrjár, núll og tíu… þetta var of flókið fyrir kvenskepnuna sem hélt hún mætti slökkva á öllu þegar yfir markið kom, þ. m. t. reiknivélinni í heilanum. Þegar ég loks skildi marktölurnar þeirra, voru syrgðar þessar tíu mínútur hans Arnar og tíu sekúndurnar hans Gauta, því hvorugur þeirra átti skilið þessar tíur í eftirdragi. Gauti enda á réttmætum og laglegum lokatímanum 2:59:58 á meðan tían hans Arnar rúnaðist ekki eins vel enda snöggtum stærri þvermáls og veitir ekki aflausn undan aðkallandi þörf múrverskunnar á að sanna hvað raunverulega býr í maraþenjanleikanum, fyrr en hann á síðari dögum mun bera á borð maraþonvalla snerpu spretthörku sinnar sem ekki fékk notið sín þennan heita sunnudag Búdapestarinnar…

Í feginleika hvíldarinnar þar sem Íslendingarnir hlúðu hver að öðrum, sólbaðaðir steikjandi hitanum svo ekki sló að neinum hroll þrátt fyrir rennsvitableytu og örblóðþreytu, reikaði hugurinn til samlandanna sem enn heyjuðu sínar orrustur í vaxandi hitanum svo nánast mátti heyra skak hlaupaskónna með rakamettaðri golunni frá maraþonbrautinni. Þeirra fang þurfti að takast á við enn meiri hita en okkar sem fyrr sluppum í mark, svo sífellt varð illskiljanlegra hvernig nokkru þeirra tækist að standast eldhafið. Hvert og eitt komu þau þó á fætur öðru… rauðskælbrosandi og söltsigrihrósandi, mörg hver drukkin þessum einstæða fögnuði yfir sínum fyrsta sigri við maraþoninn sjálfan, sem svo sannarlega er ekki auðunninn við bestu aðstæður, hvað þá á þessum hitastækjunnar völlum. Þau okkar sem fyrr höfðu þreytt þonin tókust á við sár sem hvergi höfðu myndast áður við maraþonhlaup, krampa sem aldrei höfðu látið á sér kræla áður og vanlíðan sem ekki var fyrr þekkt á hlaupum. Ég naut þeirra sérréttinda að geta staulast til mömmu minnar sem fylgst hafði með mér og hinum koma í mark en hreint ekkert litist á sýnina, móðurlegur svipur hennar, umhyggja og orð raungerðu alvarleika nýafstaðinnar orrustunnar og þess blóðs, svita og tára er runnu þennan dag og hún þerraði blíðlega af dóttur sinni… maraþonhlauparanum blóðhlaupna sem pabbi myndaði á sama tíma í gríð og erg.

Hér situr margt eftir ósagt þó flest brotin hafi verið tínd til… Í huganum takast á efasemdir um ábyrgð hitans á frammistöðunni… verður maraþonninn einhvern tíma unninn hraðar en þetta af minni hendi þó hitastig sé hið hagstæðasta? … hitinn heldur eingöngu hlífiskildi í þetta skiptið yfir þeirri staðreynd að andstæðingur þessi er ekki léttvægur þrátt fyrir herkænsku af hæsta gæðaflokki. Búdapest kenndi mér að ekkert maraþon er eins. Það líkist óneitanlega ferðalagi þar sem að engu er hægt að ganga vísu og veldur að sumir skella sér á bak aftur og aftur eins og ferðalangar af eirðarlausustu gerð, á meðan aðrir staldra hikandi við ógnvænlega óvissuna um endalok. Þungbær og lífsreynd speki foreldra minna þess eðlis að erfiðleikar gæða lífinu meira gildi en slétt og felld leið þess, undirstrika að líklegast verður Búdapestarþonið minnisstæðast og ferðafélagar þess kærkomnastir þegar stundir líða… línur þessar eru að einhverju leyti minnisvarði um það…

Bára Ketilsdóttir

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: