Félag maraþonhlaupara

Maraþonhlauparar á Íslandi

Laugavegssaga TV

Laugavegssaga 2002 -Trausti Valdimarsson segir frá

Laugavegurinn 2002

Trausti Valdimarsson

Föstudaginn 19, júlí kl 17 lögðu 33 hlauparar af stað frá Laugardalnum, hálfum sólarhring á undan öðrum Laugavegshlaupurum. Við vildum fá að „sofa út“ hlaupadagsmorguninn. Fjöldametmet voru slegin nú þegar. Skráðir voru 116, fjölgun um 17 frá þáttökumetinu í fyrra. Tuttugu frá Námsflokkum Reykjavíkur (NFR), þar af fern hjón! Með í för voru margir ÍR-ingar, HÁS-arar og ein Blá Kanna frá stór-Hafnafjarðarsvæðinu. Ragnheiður systir mín, og Arnór mágur sátu fyrir framan mig. Þau hjónin hafa verið að skokka nokkrum sinnum í viku síðustu árin, mest hlaupið 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu, þar til þau helltu sér út í hlaupin í vetur. Fóru að æfa með NFR og tóku þátt í Aquarius hlaupunum. Fyrsta hálf-maraþonið á Mývatni gekk mjög vel og eftir Vatnsneshlaupið var ákveðið að skella sér með á Laugaveginn. Pétri Frantzsyni þjálfara NFR hafði líka tekist að fá með sjö konur frá hópnum (allar í fyrsta sinn) en hann er sérfræðingur í að þjálfa konur og hvetja þær til dáða (sbr.London maraþon 1999 – 11 konur!).

Veðrið var frábært þennan föstudag, en spáin vafasöm fyrir laugardaginn, suðvestan kaldi, þ.e. mótvindur! Mikil stemming í rútunni. Komið var í Hólaskóg, fyrir norð-austan Búrfellsvirkjun kl 19. Við lögðum efri hæðina undir okkur. Hestafólk af ýmsum þjóðernum var á neðri hæðinni. Sigurður Gröndal skálastjóri hefur bætt alla aðstöðu mikið síðan í fyrra; allt til fyrirmyndar. Gísli ritari sá um að pastað væri passlegt og í hefðbundinni gönguferð eftir matinn hét hann á veðurguðina;-sem átti eftir að virka! Og eftir vaselínsögu Péturs Helgasonar HÁS-þjálfara sofnuðu hlauparar mis-vært. Sumir hrutu og eyrnatapparnir komu sér vel…..

Laugardagsmorguninn um kl 06.30 byrjaði lokaundirbúningurinn. Plástur á geirvörtur og vaselin á tær. Síðar eða stuttar? Veðrið var betra en spáð hafði verið, gola og þurrt. Ég valdi stuttar buxur en langerma bol, derhúfu og vettlinga. Rútan lagði af stað kl 07.30 og kom í Landmannalaugar kl 08.30. Þar sáum við fyrstan Steinar Friðgeirsson að hita upp! Hann hafði sýnt okkur sitt ofurgóða form í fyrri keppnum og var líklegastur Íslendinga til að veita Charles Hubbard, sigurvegaranum frá því í fyrra, keppni um fyrsta sætið. Rúturnar frá Reykjavík voru mættar á staðinn og strax komin biðröð á salernin innan um syfjaða og undrandi útlenska ferðamenn. Allt gekk þó snurðulaust. Við stilltum okkur upp við skála FÍ. Guðjón Ólafsson mundaði byssuna og kl 09 lögðum við af stað undir Laugavegsborðan, sem við áttum eftir að hlaupa undir aftur 55 km síðar.

Ég var framarlega í startinu, en engin vildi vera fyrstur upp á Laugahraunið svo ég gaf bara í – að venju. Uppi á sjálfu hrauninu kom Hubbard á góðri siglingu. Heyrst hafði að nú ætlaði hann að bæta met sitt verulega (4:39,21 árið 2001) enda án myndavélar nú! Skömmu seinna kom svo Steinar léttur á sér, hann vildi ekki sleppa Hubbard langt frá sér. Bjartmar birtist bráðlega og ég „hékk í honum“ upp á Brennisteinsölduna. Skömmu fyrir aftan okkur sá ég Hauk og Gauta, en ég vissi að þeir voru líklegir til að ná mér fyrr eða síðar. Mjög lítill snjór var á leiðinni upp í sker og auðvelt yfirferðar. Ég hafði áætlað að hlaupa „ekki of hratt“ í byrjun til þess að endast alla leið, en eins og í fyrra var erfitt að hemja sig og tíminn að Hrafntinnuskeri var svipaður og þá, rétt innan við 60 mín. Útsýnið var frábært; það sást alla leið niður að sólbjörtum Eyjafjallajökli frá brúninni rétt ofan við skálann. Sæluhrollur og sekúndur sem líða seint úr minni. Ég sá í Bjartmar ca 400 metrum framar en Steinar og Hubbard voru horfnir. Lítill snjór var í giljum en snjóbrýrnar varasamar. Ég slapp með skrekkinn þegar ég lenti með hæ fótinn í gegn um eina þunna slíka. Álftavatn og Stóra Súla blöstu við frá brún Kaldaklofsfjalla. Erfitt var að einbeita sér að því að horfa niður á tærnar og ég fékk enn á ný sæluhroll yfir sköpunarverkinu. Líklega var ég orðinn uppdópaður af „hlaupara-alsælu“ („runners high“) og fór að hlaup allt of hratt. Gat bara ekki hamið mig. Nálgaðist Bjartmar óðum og þegar kom að löngu brekkunni niður lét ég mig fríhjóla frammúr! Var líka orðin hálf dasaður þegar flati kaflinn tók við og Bjartmar náði mér fljótt. Tíminn var allt of góður þegar við komum að Álftavatni; 1:59, sem var 16 mín á undan áætlun. Reyndi að róa þetta en hékk þó með Bjartmar að Bláfjallakvíslinni. Við vorum enn þurrir í fæturna og notuðum því vaðpokana sem voru mjög góðir. Bjartmar tafði ekki heldur geystist áfram sandana en ég náði mér í orkudrykk í pokann. Sandarnir eru ansi drjúgir og nú fór ég að þreytast. Tíminn á þriðja áfangann að Emstrum var þó samkvæmt áætlun; 1:30 og samtals 3:29. Útlit fyrir góða bætingu! Náði Bjartmar á drykkjarstöðinni og fór ákafur með honum af stað þaðan. Hefði átt að drekka meira. Brekkan langa upp frá Syðri-Emstruá var mjög erfið og ég fór að finna fyrir svima, ógleði og magnleysi sem ég þekki sem einkenni vökvaskorts. Mættum Stefáni Erni, sem var á leið til að mæta.Hafdísi, konu sinni og fengum góða hvatningu. Í Slyppugili skömmu seinna sat ég lengi og drakk ásamt Bjartmari þegar Haukur Friðriksson kom hress og frískur; skálaði við okkur og kvaddi! Við Bjartmar drifum okkur af stað! Gaman var að hitta hlaupaparið Guðmann og Helgu í næsta gili (Bjórgil?) en þau buðu uppá orkudrykki, vatn og súkkulaði, sem kom sér vel. Í Fauskatorfum hittum við Jóa sem bauð uppá bjór en maginn var of tæpur. Við Ljósá biðu svo félagar frá NFR ásamt elsta syni mínum, Guðjóni Karli, en hann hljóp með og hvatti mig síðasta spölinn. Bjartmar átti þó meiri krafta eftir og náði forskoti upp Kápuna og stakk mig endanlega af. Síðasti spölurinn eftir Þröngá er ansi drjúgur og erfiður en ég reyndi að hugsa jákvætt –“bráðum Húsadalur”….- og náði að bæta tímann minn um 45 sek! Sama sæti og í fyrra. Alsæll og reyndi að bera mig mannalega enda beið konan og fjölmennt lið við markið. Teygjurnar hjá Guðjóni Karli voru yndislegar, lambið rann ljúflega niður og þegar Ragna systir kom í mark skein sólin á okkur öll. Síðustu hlauparar í mark brostu aftur fyrir eyru. Heyrði að Hubbard hefði hins vegar ekki brosað en hann var 6 sek frá bætingu! Hamingjan yfir náðum árangri byggist á væntingunum. Steinar fór 2 mín undir 5 tímana og Haukur náði ótrúlegum tíma; 5:07, (10 mín á undan mér). Þeir brostu mikið. Ingólfur Sveinsson var brattur og bauð öllum að koma í Barðsneshlaupið frá heimabæ hans eftir tvær vikur. Margir lofuðu að mæta. Frábær stemming við verðlaunaafhendinguna og víða heyrðust heitingar um endurkomu að ári. Vel var að öllu staðið hjá Ágústi og félögum. Grillveislan seinna um kvöldið hjá NFR var ekki síðri en sú fyrri, enda allir orðnir svangir á ný (og þyrstir). Halldór kokkur og félagar eiga mikið hrós skilið.

Morgunin eftir voru flestir hressir og um 30 manns tóku þátt í “liðkandi” fjallgöngu. Fyrst var Sönghellir skoðaður en síðan var stefnan tekin upp á Valahnúk. Þoka var á toppnum. Sumir mótmæltu og kvörtuðu yfir harðsperrum! Á sléttri grasflöt neðan við Valahnúk voru því gerðar eftirminnilegar hóp-teygjur undir stjórn Guðjóns Karls kroppatemjara áður en gengið var niður í Langadal.

Ferðin heim gekk ekki áfallalaust. Bera skal virðingu fyrir Krossá. Heitt var í veðri og liðið á daginn. Í þriðju ferðinni þennan dag norður yfir ána til að sækja síðasta fólkið sökk jeppinn að framan, saup hveljur og drap á sér. Rann stjórnlaust ca. 40 metra niður og vatnið fór að sullast inn um dyrnar. Hefði farið mun verr ef Ásgeir sjómaður (hennar Bryndísar Námsflokka) hefði ekki hoppað út í og verið snöggur að binda í krókinn og að splæsa saman köðlum meðan Kalli og Eyjólfur héldu jéppanum kyrrum. Rúta Austurleiða kom aðvífandi og kippti okkur upp. Ekki skemmtilegur endir á annars frábærri helgi. En eins og allir langhlauparar vita: “Sönn hamingja vex uppúr kvöl!”

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: