Félag maraþonhlaupara

Maraþonhlauparar á Íslandi

Laugavegurinn 1999

Laugavegurinn 1999Ekki lofaði veðrið góðu þegar lagt var af stað. En spáin var góð og ákveðið var að treysta veðurenglunum tindilfættu. Um 90 hlauparar fylltu tvær rútur en eftir stóðu kvíðafullir makar og aðrir aðstandendur sem furða sig á því reglulega af hverju fólk er að þessari vitleysu að flengjast yfir hálendið í marga klukkutíma. Undirritaður er úr sveit og mínu fólki þykir óþarfi að hlaupa nema kind sé á undan. Öngvu að síður var haldið til fjalla og fyrsti viðkomustaður var lúxushótelið í Hrauneyjum.

Þar beið það fyrsta óvænta. Það var á mörkunum að pláss væri fyrir alla. Þegar búið var að skipa fólki í herbergi, gengu 35 af, sem voru settir í skála og setustofuna! Þess má geta að þeir sem skrá sig snemma til þátttöku lenda yfirleitt í herbergi.

Setustofufólkið var ekki ánægt og leist ekki á blikuna. Sumir voru þungorðir og sögðu hlaupstjórnendum meiningu sína umbúðalaust. Það bjargaði undirrituðum, sem stóð frekar umkomulaus við stofudyrnar að Kristján og Kalli buðu dýnupláss fyrir framan hjónarúm þeirra félaga. Þar var þröngt þar til skápurinn var opnaður og þar mátti stinga inn löppunum. Mikið var annars gott að koma út úr skápnum morguninn eftir. Rétt er að þakka þeim félögum fyrir vikið og þess má geta að þeir láta vel í svefni.

Gleymst hafði að þíða hakkið og því drógst kvöldverður til hálfníu. Pastað var fínt, stöku freðnir molar inni á milli bita og Hrauneyjasósan brást ekki. Um tíuleytið var kvöldverður og kremkex. Ritari hafði bók á lofti og skrifaði niður spakmæli fólks. Á tímabili þornaði í pennanum.

Samskipti FM og Litla Maraþonfélagsins (sem heitir núna Frjálsa Maraþonfélagið) settu sinn svip á umræður. Jói formaður mætti nefnilega kampakátur til svæðis með eiturgræna hlaupaboli sem hann skenkti útvöldum félögum. Að auki var búið að hanna barmmerki fyrir félagið. Ritari FM fékk bol og ákvað að keppa í honum til að styrkja samband félaganna. Annars var komist að þeirri niðurstöðu að FM væri harðsnúnara en Íslensk erfðagreining og þjóðkirkjan til samans. Úr þeim er nefnilega hægt að segja sig en ekki úr FM! Sá grunur leikur á að Litla félagið ætli að standa fyrir hlaupi á haustdögum. Á dögunum fréttist af aukaaðalfundi félagsins og var hann haldinn í símaklefa. Komust færri að en vildu.

Nýtt form eða hvað?

Sigurður Gunnsteinsson kynnti hugmynd að nýju Laugavegsformi sem fékk góðar undirtektir. Ljóst er að hámarksþátttaka miðað við núverandi gistiform er um 100 manns. Setustofugisting gengur ekki fyrir fólk sem þarf að hvíla sig fyrir hlaup. Sigurður lagði til að ekið yrði frá Reykjavík snemma laugadagsmorguns kl. 6. Komið er í Landmannalaugar um kl. 9, menn liðka sig vel og teygja og síðan yrði ræst kl. 10. Miðað við gang mála í hlaupinu yrði þá farið í bæinn kl. 9 um kvöldið. Einn dagur, engin gisting.

Ef gistileiðin er farin, væri hugsanlegt að taka hús á Ferðafélagsmönnum í Laugaskála. Sá ku rúma um 80 manns.

Þetta þarf að ræða og er fólk hvatt til að láta til sín heyra.

„Regnið þungt til foldar fellur

fyrir utan gluggann minn.

Það er eins og milljón mellur

mígi í sama hlandkoppinn.“

Þennan húsgang kvað ég í huganum meðan ég hugsaði mig nokkrum sinnum frá Laugum niður í Mörk. Það gekk þokkalega að sofna með rigninguna dynjandi á þakinu. Ágúst ræsti árla morguns. Fólk hámaði í sig morgunverð og síðan gekk ekki á öðru en klósettferðum til að losa um hægðir og gengu sumir afar hart fram í þeim efnum. Metið á ónefndur hlaupari sem skeit fimm sinnum fyrir hlaup og rétt náði að gyrða sig fyrir ræsingu.

En veðrið lofaði góðu um morguninn. Létt gola, 6 stiga hiti og sólin gægðist fram. Enda var skapið gott á leiðinni uppeftir og mikill hugur í fólki. Örlítil þoka hvíldi yfir skerinu en að öðru leyti var veðrið eins og best yrði á kosið. Spáð var metbætingu í báðum flokkum.

„Hvert hlaup er hlaupið.“ (Sig. Gunnsteins)

Guðjón Ólafsson ræsir var mættur í grænu lopapeysunni, faðmaði hlaupara og óskaði þeim góðrar ferðar. Síðan mundaði hann hólkinn, talið var niður og hleypt af.

Byrjunarhraðinn í hlaupinu var með ólíkindum. Fremstu menn sprettu upp skerið og Arnaldur tók strax forystu sem hann hélt alla leið. Hann kvaðst hafa gengið flestar brekkur en rösklega og hlaupið vel þess á milli. Hann kom niður að Álftavatni 9:50 og í Emstrur 11.10. Engin furða að metið félli og það meira en nokkurn óraði fyrir áður en hlaupið hófst.

Óvenjumikill snjór var uppi á Skeri og þótti mörgum vont að hlaupa yfir langar snjóbreiður þar sem skriplað var í nær hverju skrefi. Það tók mikið í náravöðva eins og sumir fengu að finna fyrir. Í þokunni efst uppi villtust líka nokkrir dálítið af leið. Að sögn mun Sigurður Pétur hafa tapað um 10 mínútum. Enda ekki auðhlaupið fyrir ókunnuga því merkingar sáust varla á tímabili.

Af ferðum mínum verður það aðeins sagt að eftir langt tímabil depurðar og innanlærisverkja á sandinum sem leystust loks með hjálp ibufen var endaspretturinn ágætur og kom ég ánægður niður í Mörk á 6:30 sem var að vísu allnokkuð frá upphaflegu markmiði en öngvu að síður var heildarreynslan af hlaupinu ánægjuleg. Millitímar mínir í Hrafntinnuskeri og Álftavatni voru álíka og í fyrra. Það stóð til að rjúfa 6 tíma múrinn en það kemur bara næst. Eða þarnæst!:)

Niðri í Mörk var hátíðastuð á fólkinu. Einar og Lúlli stóðu yfir grillinu og það stóð á endum að kl. 15.00 var byrjað að borða og nóg var til. Nú var ekki verið að skera fituna af. Sólin hlýjaði þreytta skrokka, sumir dottuðu værðarlegir og vöknuðu öðru hverju til að klappa fólk í mark. Alls náðu 86 í mark og örfáir náðu ekki tímamörkum við Emstrur. Bætingar voru miklar hjá mörgum enda hjálpuðu kjöraðstæður til.

„Tough course“

Dave Barker, þrautreyndur últrahlaupari frá Bandaríkjunum, var 9 tíma á leiðinni og í samtali við undirritaðan kom fram að hann taldi Laugaveginn afar erfiða leið miðað við últraleiðir vestanhafs en hér væri náttúrufegurðin með eindæmum og margt að sjá á leiðinni. Hann hreifst einkum af litadýrð Landmannalauga, brennsteinsfýlunni úr Stóra-Hver, tign jökulsins og Mörkinni baðaðri sól þegar horft var niður frá Emstrum. Í Bandaríkjunum er oftar en ekki hlaupið um skógarstíga og sést lítt yfir. Hann lofaði að skrifa um hlaupið í Ultrarunning Magazine við fyrstu hentugleika.

Mikið var tekið af myndum og meðal annars var safnað þeim saman sem alltaf hafa verið með, alls þrjú skipti. Alls þrettán hlauparar. Sóru þeir þess dýran eið að mæta að ári og var fólki heitið aðhaldi, vigtun og nuddi, einkum eftir jólamatinn og jafnvel nauðungaræfingum ef með þyrfti. Allt til að enginn dytti úr. Einhverjir voru að mögla og sögðust hafa heitið því á leiðinni að fara aldrei aftur en það var ekkert hlustað á þá.

Þessir 13 eru: Steinar og Stefán Friðgeirssynir, Þórður Sigurvinsson, Sigurður Gunnsteinsson, Bjartmar Birgisson, Vernharður Aðalsteinsson, Kristján Ágústsson, Hjalti Gunnarsson, Bryndís Svavarsdóttir, Gísli Ásgeirsson, Eiður Aðalgeirsson og Arnaldur Gylfason methafi.

Mál að linni.

Gísli Ásgeirsson

(ritari FM og félagi í Litla Maraþonfélaginu eða Frjálsa Maraþonfélaginu eins og Jói vill endilega kalla það!)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: