Félag maraþonhlaupara

Maraþonhlauparar á Íslandi

Laxnessþonið-DV

Laxnessþonið í DV 16.3.2002

Það er ekki á allra færi að hlaupa maraþonhlaup. Maraþon er 42 kílómetrar
195 metrar og um þessar mundir eru 429 Íslendingar sem hafa lagt þessa
þrekraun að baki. Margir einu sinni, sumir oftar en einu sinni og sumir
mjög oft. Það mun vera Eiður Aðalgeirsson sem hefur oftast allra Íslendinga
lokið maraþonhlaupi en hann hefur 34 hlaup að baki en Bryndís Svavarsdóttir
nálgast toppinn óðfluga með 32 hlaup.
Í nokkur ár hefur starfað meðal hlaupara á Íslandi félag sem heitir
einfaldlega Félag Maraþonhlaupara, skammstafað FM. Það heldur úti öflugri
og lifandi heimasíðu með virkum tengslum við fjölmargra hlaupahópa. Það
stendur fyrir ýmsum óvenjulegum hlaupum og heldur nákvæma skrá um alla
Íslendinga sem hafa lokið þessu erfiða verkefni.
DV settist niður á kaffihúsi með formanni félagsins frá upphafi, Pétri
Frantzsyni og ritara félagsins og umsjónarmanni heimasíðunnar, Gísla
Ásgeirssyni. Pétur hefur hlaupið 14 maraþon en Gísli 16.
Þeir félagar eru kampakátir og segja blaðamanni allskonar tröllasögur af
hlaupum og hlaupastarfi. Það er inntökuskilyrði í Félag maraþonhlaupara að
hafa lokið að minnsta kosti einu löglegu heilumaraþoni og þýðir lítt að
bera upp tvö hálf maraþon eða einhverja búta.
„Við teljum að í félaginu séu allir Íslendingar sem hafa lokið maraþoni,“
segir Gísli ritari sem segir að vefsíða félagsins fái oft meira en 100
heimsóknir á dag sem beri áhuga félaganna fagurt vitni.
Pétur er um þessar mundir þjálfari í hlaupahópi Námsflokka Reykjavíkur en
þar kynntist hann einmitt maraþonhlaupum fyrir rúmum 10 árum þegar hópurinn
fékk aðstöðu í Miðbæjarskólanum þar sem Pétur var húsvörður. Þá reykti
Pétur þrjá pakka af sígarettum dag hvern og hugði sig lítt til hlaupa
fallinn en ákvað um síðir að snúa sér að þessu sérstæða áhugamáli og er
sagt að hann hafi þjálfað fleiri til fyrsta maraþonhlaups en nokkur annar.
Félag maraþonhlaupara hefur fitjað upp á ýmissi nýbreytni í hlaupaheiminum,
efnt til nýrra hlaupa s.s. vetrarmaraþons á hverju ári í nokkur ár,
sólstöðuhlaup er farið 21. desember ár hvert og hlaupið frá sólarupprás til
sólarlags sem eru rúmir fjórir tímar. Félagið hefur staðið fyrir svokölluðu
þingstaðahlaupi þar sem hlaupið er frá Þingvöllum á Austurvöll og yfir
vetrarmánuðina er svonefnt Aquarius hlaup ávallt annan þriðjudag í hverjum
mánuði.
Ekki er starfsemi félagsins hugsuð sem mikil fjárplógsstarfsemi og
þátttökugjöldum í öllum hlaupum stillt í hóf og öll störf unnin í
sjálfboðavinnu. Engin árgjöld eru í félaginu en þeir félagar segja að eitt
sinn hafi manni verið endurgreitt árgjald sem hafði greitt það í misgripum
af því hann hélt að þannig væri það í öllum félögum. Þrátt fyrir þetta á
félagið fjölbreyttan búnað af ýmsu tagi til hlaupastarfa svo sem
tímatökubúnað af fjölbreyttri gerð, brautarkeilur og sjóði digra til
frekari afreka.
En hver skildi vera tilgangur félagsins. Er ekki nóg fyrir fólk að hlaupa?
Þarf það að vera í félagi um það?
„Tilgangur félagsins er að fjölga þeim sem hafa hlaupið maraþon, boða
fagnaðarerindið. Þessu markmiði hefur félagið náð með því að halda tvö
maraþonhlaup á ári og standa að auki fyrir hinum og þessum langhlaupum. Auk
þess með nefndri vefsíðu og góðum tengslum við grasrótina í
hlaupaheiminum,“ segir ritarinn alvarlegur á svip.
Hin raunverulega grasrót hlaupaheimsins er í hinum fjölmörgu hlaupahópum
sem starfa víðsvegar um bæinn og þar fá nýliðar þá hvatningu, fræðslu og
leiðbeiningar sem nauðsynlegar eru til að stunda hlaup. Óþarft er að taka
fram að mýmargir skokka fyrst og fremst sér til ánægju og heilsubótar og
hafa engan sérstakan metnað til þess að ljúka maraþonhlaupi. Formaður og
ritari eru þó sammála um að hlaupahópar veiti félagslegt aðhald og
hvatningu á þessu sviði og séu þannig til þess fallnir að fjölga í félagi
þeirra.
Marsmaraþon Félags maraþonhlaupara fer fram 23 mars næstkomandi og er með
nokkuð óvenjulegu sniði. Að þessu sinni er það kennt við Halldór Kiljan
Laxness sem hefði orðið 100 ára í apríl næstkomandi hefði hann lifað, og
kallað Laxnesmaraþonið. Hlaupið hefst eins og kannski má gera ráð fyrir í
túnfætinum í Gljúfrasteini og hefur sá áfangi verið nefndur Í túninu heima.
Þar verða keppendur ræstir með sérstöku forgjafarsniði sem aðeins tíðkast í
hlaupum hjá Félagi maraþonhlaupa. Það þýðir að þeir sem hlaupa hægar eru
ræstir fyrr en þeir spretthörðustu seinastir. Þetta þýðir hinsvegar að
allir keppendur koma í mark á sama hálftímanum og verður fyrir vikið mun
skemmtilegri stemmning í hlaupinu.
„Þarna fær enginn þá tilfinningu að starfsfólkið sé orðið leitt á að bíða
þegar hann loksins kemur í mark. Í svona hlaupum verða þeir síðustu stundum
fyrstir og þeir fyrstu stundum síðastir,“ segir Gísli ritari.
Í virðingarskyni við skáldið sem hlaupið er kennt við hafa allar
drykkjarstöðvar á leiðinni verið nefndar með vísan í verk hans. Við Korpu
verða tveir starfsmenn og heitir þar Innansveitarkronika. Á Listaverkahæð í
Grafarvogi verður starfsmaður við leiðsögn yfir umferðargötu. Hann er Barn
náttúrunnar.
Við Olís stöðina í Grafarvogi er Brekkukotsannáll og niðri í Elliðaárdal í
Elliðaárhólma er Atómstöðin þar sem er drykkjarstöð og gæsla. Hlaupaleiðin
liggur síðan út á Ægissíðu þar sem snúið er við og endað í marki í
Laugardal. Á Ægissíðu er Vettvángur dagsins og lokamarkið í Laugardal
heitir síðan Paradísarheimt.
Það kemur kannski ekki á óvart að Vaka-Helgafell sem gefur út verk
skáldsins hefur af rausnarskap gefið verðlaun og það kemur heldur ekki á
óvart að verðlaunin eru bækur Halldórs Kiljan. Sigurvegarar í karlaflokki
fá Sjálfstætt fólk en í kvennaflokki er Salka Valka í verðlaun. Verðlaun í
forgjaraflokki eru ungur ég var fyrir karla og Snæfríður Íslandssól fyrir
konur.
Það kemur í ljós við umræður að þótt forsvarsmenn félagsins séu sjófróðir
um skipulag slíkra hlaupa víðsvegar í heiminum er þeim ekki kunnugt um
neina hliðstæðu við Laxneshlaupið þar sem hlaupið er heilt maraþon. Þó er
vitað um hlaup sem reglulega fer fram í Dublin á Írland og er kennt við
James Joyce, frægasta rithöfundar Íra. Þar er gengið svo langt að meðfram
hlaupaleiðinni mun vera lesið í síbylju úr verkum höfundar.
„Eftir því sem við komumst næst þá er þar um að ræða tíu kílómetra hlaup
þannig að þetta maraþonhlaup gæti verið það eina í heiminum með þessu
þema,“ segir formaðurinn.
Íslendingar hafa hlaupið maraþon á heimavelli í á annan áratug en það
færist stöðugt í vöxt að hlaupahópar taki sig saman og reisi til útlanda og
taki þar þátt í frægum maraþonhlaupum. Gísli og Pétur vita að 12
Íslendingar munu taka þátt í Bostonmaraþonhlaupinu 16. apríl.
„Þetta er elsta maraþonhlaup heims og það þarf að ná ákveðnum lágmarkstíma
til að fá að taka þátt því aðeins 16 þúsund manns fá að taka þátt,“ segir
Pétur formaður og er nett ánægður því hann er sjálfur í þessum hópi. Umrætt
hlaup var fyrst hlaupið 1897 en til gamans má geta þess að konur fengu ekki
leyfi til að taka þátt í því fyrr en 1972. Í ár verða næstum jafnmargar
konur og karlar sem hlaupa í Boston sem segir sína sögu um breytta tíma.
Londonmaraþonið er 15. apríl og þar er opin þátttaka og yfirleitt um 40
þúsund þátttakendur og þangað ætlar að þessu sinni hópur sem telur nokkra
tugi og einnig fara allmargir til Stokkhólms í sömu erindagjörðum.
Það veit enginn nákvæmlega hvað það er langt síðan að Fippídes hljóp frá
Maraþon til Aþenu til þess að flytja mönnum fréttir af sigri Aþeninga í
orustu mikilli og hneig dauður niður að loknum fréttaflutningi, segir
sagan. Við þessa leið er maraþonhlaupið miðað. Hitt er ljóst að andi
Fippídesar lifir enn og lærisveinar hans eru bæði margir og sporléttir.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: