Félag maraþonhlaupara

Maraþonhlauparar á Íslandi

Mont Blanc 2007-Börkur Árnason

The North Face Ultra-Trail – 1. hluti

Eftir lítinn svefn aðfaranótt miðvikudags var haldið út á Keflavíkurflugvöll og flugið tekið til Köben. Eftir að hafa fundið hótel með herkjum héldum við í skemmtigarð og hittum þar dóttur Bikka. Tókum nokkrar rússibanaferðir og slíkt áður en haldið var heim á leið. Sofnuðum seint og vöknuðum snemma í næsta flug til Genfar.Það gekk nú ekki vel að koma sér til Chaminoix og græja það sem þurfti, við rétt misstum af 11 rútunni frá Genfar flugvellinum og sú næsta átti að fara klukkan 17:30 sem var alltof seint. Fréttum þó af skutlu-þjónustu sem gekk til Chamonix en hún var að sjálfsögðu full og en laust í 15:00 ferðina. Svo við biðum eftir henni og þar fuku því nokkrir klukkutímar. Komumst til Cham rúmlega fjögur og eftir að hafa hent draslinu inn á hótel fórum við niður á skráningarsvæðið til að ná rútu þar til Courmayeur í Italíu þar sem Bikki þurfti að ná í gögnin sín þangað. Fórum á svæðið þar sem þær áttu að bíða en engin var þar svo við gengum á staðinn þar sem þær voru í fyrra en ekki voru þær þar heldur svo við fórum til baka og sáum þá rúturnar fara en einhvernveginn hafði þeim tekist að koma við og stoppa í mjög stuttan tíma og þar með ljóst að við yrðum að bíða eftir 6:00 rútunni yfir til Italíu, ég varð ÖRLÍTIÐ pirraður. Fórum í staðinn og náðum í gögnin mín og hittum ljósmyndara sem var í Laugavegshlaupinu (hljóp með fyrstu mönnum í byrjun) sem var að kynna mjög flott hlaupablað, Trail Attidude. Þar var stór og mikil umfjöllun um Laugavegshlaupið og Rakel t.a.m. á forsíðunni.

Eftir þetta fórum við í rútunu upp í Courmayeur og að sjálfsögðu var biðröð í göngin svo við komum rét fyrir 7 og þannig útlokað að ná 7:00 rútunni til baka svo við þurftum að bíða frá 7:10 til átta eftir næstu rútu. Enn og aftur frekar pirrandi! Vorum því komnir til baka á hótelið hálftíu um kvöldið og er óhætt að segja að ég hafi bölvað sjálfum mér að hafa ekki pælt betur í skipulaginu og enn meira bölvaði ég Icelandair þar sem þeir alræmdu vitleysingar höfðu af engri ástæðu annarri en þeirra eigin heimsku ákveðið að hækka fargjaldið til Amsterdam um 100% þannig að við gátum ekki tekið sömu tenginguna til Genfar og í fyrra heldur þurftum við að fara í gegnum Kaupmannahöfn. Þar með lentum við hálftíma seinna á flugvellinum og misstum þar með að rútunni…..et.c).

En ekki skildi þetta eyðileggja fyrir okkur það sem framundan biði. Vöknuðum klukkan 6:30 á föstudagsmorgunn þar sem Bikki þurfti að græja sig áður en hann færi í rútuna til Courmayeur. Ég og Höskuldur kvöddum hann og hittum síðan nokkra Breta sem ég hafði verið í sambandi við áður.

Eftir það var reynt að sofna aðeins upp á hóteli enda komnar þrjár svefnlitlar nætur í röð sem er nú ekki beint það besta fyrir svona löng hlaup. En ekki tókst það og var ég vakandi þar til við Höskuldur fórum með pokana fyrir Courmayeur/Champex í móttökutjaldið. Kom aðeins við á hótelinu áður en ég hélt að ráslínunni rúmlega fimm. Þar sem ég stóð og tók myndir uppgötvaði ég að ég var allt í einu orðinn umkringdur hlaupurum svo það var lítið annað að gera en að setjast niður og bíða á þeim stað sem ég stóð. Giskaði á að ég væri einhversstaðar á milli 500-1000 í hópnum, sem var fínt að mér fannst. Eftir helling af frönsku og ítölsku og smá ensku hættu menn loks að gjamma í míkrófóninn og við tók lag hátíðarinnar og var talið niður undir því, þvílík stemming sem hafði myndast. Þarna hinsvegar kom þreytan yfir mig enda ekki sofið nema 4-5 tíma síðustu 3 nætur og fékk ég þarna 10 mín fyrir start smá „reality shock“. Hvað var ég að fara að gera svefnlaus í 30+ tíma hlaup? En svefnleysi og þreyta varð bara að bíða fram yfir hlaupið, af stað skyldi farið!

2. hluti:

Semsagt, ég stóð þarna á ráslínunni, nokkuð þreyttur og fara af stað í fyrsta sinn í seinnipartshlaup sem var frekar skrítið. Eiginlega var maður frekar til í að skríða upp á hótel og kíkja á fréttir í sjónvarpinu eins og maður gerir venjulega á þessum tíma. En nú fór að styttast í ræsingu og skyndilega fór mannhafið af stað. Það tók smá tíma að komast á hreyfingu og fyrsta km hljóp maður nokkur skref, stoppaði þegar þrengdist að þvögunni og loks var maður kominn út á opinn veg og en mannhafið hélt áfram að flæða í kringum mig. Reyndi að finna pace sem mér leið vel á og þannig hljóp ég næstu km. Margir fóru þó fram úr mér en ég fór líka fram úr helling af fólki. Hlaupið var eftir þægilegum göngustíg með smá hækkunum/lækkunum.

Eftir 8 km komum við að Les Houches og eftir smá stopp á drykkjarstöðinni þar þá var haldið áfram upp í fjallið La Charme. Heitt var í veðri og svitnaði ég svo mikið að það var stanslaus foss af svita fram af derhúfunni. Það fjall hafði ég bara vart tekið eftir á kortunum enda „bara“ 1800 metrar. Í samtali við franskan kunningja fyrir hlaupið var sagði hann að þetta fjall væri létt, það var það ekki. Bæði minnti mig að það væri bara smá hækkun en hún var 800m en lækkunin var hreint stórkostleg, 996 metra nánast lóðrétt drop niður í St. Gervais. Þvílíku og annað eins hef ég aldrei kynnst á hlaupum. Þótt ég færi hægast niður af þeim sem voru í kringum mig verkjaði mig þvílíkt í tærnar, ristina og ilina. Til að toppa þetta endaði það á mjög bröttu malbiki og maður veit fátt betra en mikið viðnám þegar maður fæturnir loga……..eða þannig! Frakkarnir fræstu niður þessa brekku eins og brjálaðir væru. Þegar niður var komið voru fæturnir logandi og ansi vel heitt á bremsuvöðvunum í lærunum….Jökultungur hvað! Fékk samt ekki blöðrur eða bláar neglur, hafði hert nógu vel á skeifunum til að forðast það. Niðri í St. Gervais var myrkur að skella á en hávaðinn og lætinn í fólkinu þvílíkur að það var eins og maður væri að hlaupa inn á Olympíuleikvang. Eftir áfyllingar og smá nart í það var á boðstólnum var haldið áfram út í gegnum öskrandi mannhafið og út í myrkrið. Þar voru hinsvegar flestir gangandi enda lærin búin eftir brekkuna góðu. Ég náði hinsvegar að hlaupa töluvert enda nokkuð flatt næstu kílómetrana.

Þá tók við nokkuð stöðug hækkun að Les Contamines og var það að mestu gengið en tekið á sprett inn á milli. Þarna var ennþá óslitin röð hlaupara þrátt fyrir að farið væri að nálgast þrítugasta kílómeterinn. Brátt komum við að Les Contamines og eftir stutt stopp þar var haldið upp í La Balme ( km 38 ). Farið var eftir vegi en þrátt fyrir það gekk mér ekki vel, fann að ég var ekki eins og ég átti að vera. Kominn með snert af hausverk og einhver vanlíðan var í mér sem gerði þetta verkefni sem framundan var langt frá því spennandi. Tók upp göngustafi sem Mike félaginn minn hafði beðið mig um að taka með mér og gekk allt í einu allt betur. Hafði prófað göngustafi hér heima en þeir voru ekki að virka, en þarna virkuðu þeir frábærlega.

Kom mér upp í La Balme og drakk helling af vatni og fór svo og fékk mér tvær súpuskálar. Gekk af stað en fann að ég var enn ekki góður svo ég fékk mér tvær verkjatöflur og setti Ipodinn á fullt. Þá fyrst fór þetta að ganga og upp Col du Bonhomme var gengið í röð á eftir öllum hinum. Það tók dágóðan tíma ekki síst vegna þess að hjartað fór á fullt þegar upp fyrir 2100 metrana var komið þannig að ég varð að taka smá pásu af og til. Leiðin var auk þess grýtti og nokkuð erfið. Það var gott að komast upp á fyrsta 2500 metra fjallið, nú voru bara þrjú eftir.

The North Face Ultra-Trail – 3. hluti

Leiðin niður var eftir þröngum kindagötum/göngustíg og var nokkuð snúið að hlaupa hann þar sem hann var dálítið blautur og háll. Hljóp með Breta þarna niður og gekk þetta bara nokkuð vel þar til við komum að síðustu brekkunni sem var snarbrött grasbrekka með blautri dullu. Það er skemmst frá því að segja að Bretinn tók góða dýfu og reif af sér flöguna sem hengd var á úlnliðinn og ég fór sömu leið og skar mig á fingri. Svo kom Frakki rúllandi á eftir okkur. Skilst að nokkrir hafi slasast og hellingur af göngustöfum hafi farið fyrir lítið þarna. Þetta var semsagt bara snilld J Svona rúlluðum við niður í Le Chapieux (km 49 ). Þar voru engu minni læti en í St. Gervais og eftir áfyllingar og eftir að hafa látið hreinsa blóðið af puttunum hélt ég áfram. Þarna í Chapieux sá ég að verið var að sauma saman Michael Polletti sem er einn af þeim skipuleggur keppnina, auk þess sem að einn var sofnaður undir borði. Þetta var að snúast upp í alvöru aksjón!Þarna var orðið nokkuð kalt og skipti ég því í Laugavegsbolinn og þunnan utanyfir stakk því nú var Col de Seigne framundan. Á leiðinni upp eftir tók Julian framundan fram úr mér en hann er Frakki sem ég hafði verið í e-mail samskiptum við. Þegar nær Col de Seigne dró fór ég að fá verk vinstrameginn í bakið og ágerðist hann alla leiðina upp á toppinn og þar var hann orðinn það slæmur að ég átti erfitt með öndun. Taldi að ég hefði tognað við fallið við Le Chapieux. Upp á toppnum voru tjöld og nokkrir menn með neyðarbúðir. Þeir buðu mér að leggjast í smá stund en ég þáði það ekki. Tók í staðinn tvær íbúfen áður en ég lagði af stað. Verkurinn hvarf fljótlega sem var eins gott því nú var hlaupið niður móa og kindagötur og mikilvægt að hafa allann líkamann í lagi. Bretinn sem ég hljóp á eftir niður Col du Bonhomme var nú aftur fyrir framan mig og talaði um að sig langaði í kaffi þegar niður í Refuge Elizabeta kæmi. Þegar þangað niður var komið voru sumir orðnir ansi tættir og þreyttir. Fékk mér vatn, kók og kaffi áður en ég hélt af stað. Rétt áður en ég fór út af svæðinu rakst ég á Julian mér til mikillar undrunar, hann hafði þá krassað uppi á Col du Seigne og lagt sig í 15 mín til að ná sér. Kvaddi hann og nú var bara einn dalur og eitt hátt fjall eftir fram að Courmayeur.

Þegar ég var að klára dalinn byrjaði að birta til og dalurinn fór að taka á sig fallega mynd. Hljóp þarna eftir vegi og var sá eini sem var að hlaupa, Frakkarnir gengu svo hratt að þeir þurftu þess ekki. Vel gekk upp síðustu brekkuna og loks blasti Courmayeur við, gallinn var hinsvegar að það var 1500 metra lækkun niður og var hún tekin ansi skarpt. Lærin biðu ekki beinlínis í biðröð eftir þessari lækkun og hvein mikið í þeim þarna niður. Þetta var býsna sárt svo vægt sé til orða tekið en ekki var um annað að gera en að klára þennan fjanda. Kom niður í Courmayeur á þokkalegum tíma eða eftir rúma 13 tíma. Þegar í stöðina var komið náði ég í pokann minn og fór inn í „veitingasalinn“. Þar settist ég niður og náði mér í eitthvað að borða og drekka. Greinilegt var að margir voru orðnir þreyttir þarna. Ég ákvað að borða vel og fá smá orku í lærin fyrir brekkuna alræmdu upp í Refuge Bertone. Skipti um sokka en ákvað að halda áfram á sömu skóm en reimdi þá núna aðeins lausar enda engin lækkun framundan næstu 20 km. …..

4. hluti.

Eftir að hafa setið um stund tók ég saman fatapokann og skilaði honum og ákvað að leggja af stað upp brekkuna góðu upp í Refuge Bertone (800m hækkun). Hitti strax Bandaríkjamanninn David Goldberg á leið upp í gegnum bæinn og svo kom einhver Frakki og kallaði nafnið mitt og sagði eitthvað hvetjandi að mér skyldist á hans fátæklegu ensku. Var nú frekar hissa að einhverjir væru farnir að þekkja mig með nafni þarna í 2500 manna keppni en hann hefur örugglega séð nafnið mitt inni í matsalnum. Á leiðinni upp brekkuna kemur Lori Cooper að okkur og gengur með okkur upp. Hún er vel reyndur Ultra-hlaupari og var á góðu skriði. Við komum upp í Refuge Bertone á ágætum tíma og eftir vatn, myndatökur og slíkt hélt ég áfram inn dalinn í átt að Grand Col Ferret, síðasta háa fjallið. Náði David fljótlega þar sem hann var að æla lungum og lifur við hliðana á stígnum. Hljóp síðan Lori uppi en ég átti mjög auðvelt með að hlaupa þarna og í góðu stuði þótt fæturnir væru orðnir nokkuð sárir. Stuttu seinna fæ ég sting undir tábergið eins og blaðra sé að myndast og grunaði mig að vinstri skórinn var of laust reimaður. Settist niður og reimaði hann upp á nýtt og hljóp áfram en ekki gekk það. Enn var verkur til staðar og reimdi ég því skóinn enn betur. Hökti svo að Refuge Bonatti og var orðinn frekar pirraður á verknum enda hafði hann eyðilagt fína hlaupaleið.

Þarna í Bonatti hittum við Diane Van Deeren sem er öflugur Ultra-hlaupari og ein af North Face liðinu. Hún er yfirleitt á topp 10 í Ultra hlaupum og 1-3 sæti kvenna en þarna átti hún erfiðan dag og var eins og David búin að æla nokkrum sinnum. Eftir Bonatti fór þetta að batna og hljóp ég sem leið lá að Arnuva. Þegar þangað kom var orðið skuggalega heitt enda Arnuva í kvos þar sem kjörið er fyrir hitapoll að myndast. Flúði inn í drykkjartjaldið og hékk þar um stund meðan ég drakk nóg og át aðeins, stakk mér svo út í steikjandi sólina en nú var 1:30 klst klifur framundan upp á Col du Ferret. Mig langaði til að stökkva í jökulánna sem rann framhjá drykkjarstöðinni frekar en göngutúr í sólinni. En áfram gekk ég en fann til orkuleysis og ljóst að ekki yrði létt verk að klífa hólinn. Neðri hluti fjallsins var mér erfiður en ofar stoppaði ég og fékk mér vel að drekka og nóg af geli og stuttu seinna náði ég að hlaupa uppi 4 hlaupara sem voru komnir töluvert fram úr mér og var bara nokkuð góður á toppnum í 2537 metra hæð.

!

The North Face Ultra-Trail – 5. hluti

Næst var að hlaupa niður í Sviss en þá jókst hitinn enn og þurfti ég að stoppa oft á leiðinni niður til að drekka. Stór sopi hvarf á ca. 15 mín og því þurfti ég oft að drekka. Kom loks alveg grillaður niður í La Peulaz og stökk inn í tjaldið. Það var hinsvegar ekki stórt og settist ég niður með nokkrum öðrum þám Spánverja nokkrum sem fannst alltof heitt……þegar Spánverja er heitt þá hlýtur að vera heitt!!!!Eftir smá stopp þar fór ég af stað niður í La Fouly, þurfti að taka töluverða lækkun fyrst áður en komið var niður á veg en eftir að hafa hlaupið meðfram honum var farið útaf honum, yfir brú og svo hlaupið í skógi sem var þarna meðfram á. Þar rauk hitinn upp í rjáfur og hætti mér alveg að lítast á þetta, þetta var orðið verra en Laugavegurinn 2003. Komst loks niður í La Fouly og mér til mikillar ánægju var ein vatnsflaskan ísköld og tók ég hana með mér á borðið og drakk ca. helminginn strax eða um 1 líter. Stoppaði þarna í nokkurn tíma og hringdi í Bibbu og sagði farir mínar ekki sléttar. Þar sem ég sat og var að velta fyrir mér að ganga niður í Champex mundi ég eftir trjágöngum frá því í fyrra og taldi að mun svalara yrði þar og alls ekki svo slæmt að hlaupa. Fyllti því brúsana og stökk af stað. Það er skemmst frá því að segja að trjágöngin reyndust vera tvö tré með 100 metra millibili og hreinn og klár grillofn tók við. Var að því kominn að stökkva í jökulánna sem rann þarna meðfram stígnum. Stuttu seinna kom myndatöku þyrlan og sveif yfir mér með ógnarhávaða, veit ekki hvort hún var að mynda mig eða þá sem á eftir komu en hún fylgdi mér dágóðan spotta. Eftir góðan sprett var komið í Praz de Fort en þar biðu krakkar með vatna í glösum og sturtaði ég einu í mig. Skömmu síðar rakst ég á útikar til brynningar og það var mjög freistandi að stökkva ofan í, en tók mynd í staðinn og hljóp af stað. Nú lá leiðin til Issert en þaðan liggur leiðin upp bratta og leiðinlega brekku upp í Champex. Einhvern veginn var maður alltaf að verða kominn en alltaf aðeins meira eftir. Loks var komið upp í Champex og var það léttir því það var stór stöð þar sem hægt var að fá sér vel að borða og drekka.

The North Face Ultra-Trail – 6. hluti

Þegar upp í Champex var komið var ég orðinn býsna grillaður og heitur. Tók farapokann minn og gekk inn. Sá strax stelpu sem hafði hlaupið með mér í byrjun og var hún hætt og komin í þægileg föt. Leit svo í kringum mig og sá fleiri sem voru hættir eða voru ekki líklegir til að halda áfram. Fékk mér pasta en kúgaðist af fyrsta bita. Fór og sótti mér súpu sem rann vel niður. Drakk síðan vel af kóki og vatni. Fór síðan að huga að farapokanum og var að velta fyrir mér hvort ég ætti að skipta um sokka. Tær, táberg og il voru mjög aum orðin og þrútin. Eftir smá íhugun ákvað ég að fara í svefntjaldið og setja hátt undir lappirnar og hvíla þær aðeins. Var einn í svefntjaldinu og en það var við hliðina á matartjaldinu og hávaðinn því mikill. Ég taldi útilokað að sofna. Eftir að hafa lagst út af og fylgst með tveimur öðrum koma inn hef ég sennilega dottið út því ég vakna við það að Stefán V. hringir og þá voru líklega 20 mínútur liðnar frá því að ég mundi síðast eftir mér.

Græjaði mig í nýja sokka og fór aftur inn í matartjaldið. Var bara býsna hress eftir þetta. Þar inn rakst ég á David sem ég hafði hitt á leiðinni upp í Refuge Bertone. Hann hafði líka lagt sig í 20 mín og fengið sér vel að borða. Við settumst niður og átum aðeins meira áður en við héldum af stað. Eitthvað var maður stirrður og asnalegur til að byrja með. Eftir smá labb kemur Julien fram úr okkur en ég hafði hitt hann fyrr í hlaupinu þ.e. í Refuge Elizabeta og aðeins fyrr líka. Hann hafði líka lagt sig í 20 mínútur og var að ná sér eftir niðursveiflu sem hann lenti í.

Hann skokkaði svo aðeins á undan okkur og við skröltum á eftir. Fljótlega kom Diane Van Deeren fram úr okkur og eftir smá rabb við David hvarf hún á brott. Nú fórum við að skokka aðeins og gekk það alltaf betur og betur. Hlupum út af veginum og inn í skóg og eftir honum um stund. Komum svo loks að næst síðasta fjallinu Bovine. Byrjuðuðum að ganga upp veg en síðan tók við meiri og meiri halli þar til við fórum að klifra upp nokkurskonar gil eða klettabelti. Það tók vel á enda þurfti oft að klöngrast yfir háa kletta. Þegar upp fyrir trén var komið var haldið fyrir fjallið og tók það nokkurn tíma enda langt að fara.

Loks var komið í drykkjarstöðina Bovine. Þar fékk ég mér kók og hitti á David en hann hafði lent framar í hópnum og komið á undan upp. Þarna var ennþá funheitt og mjög heitt í öndunarbol þrátt fyrir að klukkan væri 2200 og ég væri staddur í 2000 metra hæð. Við kláruðum síðustu hækkunina og við tók mikil og löng lækkun. Fyrst átti ég erfitt með að fara niður á móti en smá saman tókst mér að koma lærunum í lag og þaut á eftir David. Missti svo af honum þegar ég mistók hann fyrir Frakka nokkurn í myrkrinu en þegar ég uppgötvaði það fór ég fram úr honum og þaut niður fjallið til að ná David. Það gekk vel þrátt fyrir myrkrið og erfiðan stíg. Zik-Zakið niður náði mjög langt til hægri og vinstri og var því leiðin niður löng. Ég keyrði eins og ég gat til að ná David en hann var hvergi sjáanlegur fyrr en ég kom niður í Trient.

 

The North Face Ultra-Trail – 7. hluti (lokahluti)

 

Í Trient var tekin smá pása og var þar mikið um að vera. T.d. var fylgst með tímum á skjávarpa og kallað upp þegar ég kom að þar væri Íslendingur á ferð og uppskar ég mikið fagnaðarlæti fyrir það. Það var virkilega gaman. Eftir smá stund leggjum við aftur af stað gangandi og en þegar ég stíg mitt fyrsta skref í skógastíginn upp fjallið kviknar bókstaflega í mér og ég þýt upp fjallið á útopnu og næ helling af liði. Geng með því upp á topp en þá er margir búnir á því og ég fer fram úr mörgum sem sitja í hlíðinni. Keyri vel áfram og svo á trylltri ferð niður fjallið. Þessi orka kom mér skemmtilega á óvart og naut ég þess að þruma þarna niður þrönga og erfiða stígana í myrkrinu. Hljóp uppi marga á niðurleiðinni líka og svo var tekið brun niður í Vallorcine sem var næst síðasta drykkjarstöðin. Fékk mér kók og kökur enda orðinn vel svangur og þyrstur eftir hlaupið niður. Sé síðan David koma og lít á klukkuna og sé að ég náði að vera korteri fljótari en hann yfir fjallið. Taldi það býsna gott. Við fórum síðan út í myrkrið til að klára þennan pakka en ég var eitthvað snúinn og stirrður í vinstra hnénu og tók tíma að laga það. Gekk töluverða vegalengd, aðallega vegna þess að stígurinn var erfiður. Sleipur kúastígur að mér sýndist. Þegar um helmingur var kominn færðist leiðin yfir á þægilegan göngustíg meðfram veginum til Argentiere. Þarna datt ég aftur í gang og þaut af stað og halaði strax inn alla þá sem höfðu farið fram úr mér og var töluvert á undan þeim að drykkjarstöðinni í Argentiere. Þar beið ég eftir David og síðan hlupum við saman síðustu 10 km í mark. Byrjuðum fyrst rólega en svo jókst hraðinn þar til við tókum síðust 6 km á útopnu. Við fukum fram úr mjög mörgum enda flestir gangandi í myrkrinu. Undir lokin var farið að birta til og það var meiriháttar að sjá Chamonix í dagsbirtunni vitandi það að nú væri þetta að verða búið. Jukum svo aðeins við þegar við komum niður í bæinn og nú var þetta orðið hreinn endasprettur. Náðum nokkrum rétt fyrir markið en svo var allt sett á rauðglóandi botn síðustu metrana.

Það var síðan frábær tilfinning að koma yfir marklínuna. Gjörsamlega öskraði af ánægju. Hitti Cathrine Poletti í markinu en hún skipuleggur hlaupið og þakkaði henni fyrir frábært hlaup. Spurði frétta af manninum hennar Michel Poletti sem var saumaður í Les Chapieux. Hann var en á hlaupum en kláraði síðan á 39:35 eftir topp 100 finish síðustu ár. Greinilegt að sárið sem hann fékk hafði háð honum mikið. Að lokum fékk ég hinn eftirsótta Finisher jakka/vesti. Var heldur montinn með það J Eftir hlaupið ræddi ég við David og Diane Van Deren, http://thenorthface.com/eu/athletes/athletes-DVD.html, og voru þau sammála um að þetta væri þ að alerfiðasta hlaup sem þau hefðu tekið þátt í. Þau höfðu tekið þátt í þeim erfiðustu í Bandarríkjunum en fannst nú lítil áskorun felast í þeim. Bikki bróðir tók á móti mér í markinu og bað ég hann um kókglas, það var hinsvegar kominn svo mikill kuldaskjálfti í mig að það var allt farið út glasinu áður en ég kom því að vörunum. Þá var ekkert um annað að ræða en að fara að sofa!

%d bloggurum líkar þetta: