Félag maraþonhlaupara

Maraþonhlauparar á Íslandi

Búdapestþonið-GAJ

18. Búdapest maraþon haldið 28. september 2003.

Nær níutíu manna hópur hlaupara og áhangenda gerði sér ferð til Búdapest í lok september. Flestir í þeim tilgangi að taka þátt í Búdapest maraþoni, aðrir hlupu skemmri hlaup og enn aðrir notuðu tækifærið til að kynnast borginni í tengslum við hlaupið.

Gögn voru sótt síðdegið daginn fyrir hlaup. Þau voru afhent í stórum sal skammt frá rásmarkinu. Í upplýsingabæklingi sem sendur hafði verið með staðfestingu á skráningu var kort af svæðinu og nákvæmar skýringar á hvernig skyldi komast þangað, svo að það reyndist mjög auðvelt fyrir ókunnuga. Bæklingurinn var bæði á ensku og ungversku þannig að vel var hugsað um upplýsingagjöf fyrir útlendinga. Með gögnum og númeri var einnig húfa, svampur og drykkjarbrúsi. Svampurinn reyndist mörgum vel daginn eftir. Einnig voru á staðnum sölubásar með hlaupavörum og fleiru sem að gagni gat komið fyrir hlaupara. Þegar gögn höfðu verið sótt var pastaveislan næst á dagskrá. Hún fór fram í stóru tjaldi rétt hjá þar sem komið var í mark þannig að það nýttist bæði í undirbúningi hlaupsins og við framkvæmd þess daginn eftir. Í pastatjaldinu spilaði hljómsveit af miklum krafti og var það fyrirboði þeirrar stemmingar sem Ungverjar lögðu mikið upp úr við framkvæmd og umgjörð hlaupsins, fjör og léttleiki réði ríkjum.

Morgunmatur var tekinn snemma þann 28. september eða kl 7.00. Ekki var ráð nema í tíma væri tekið þar sem hlaupið átti að byrja kl. 10.00. Upp úr kl. 8.00 var farið neðanjarðarlestinni þangað sem hlaupið skyldi hefjast. Skipt var um föt í baðhúsi rétt hjá rásmarki. Þar var faglega að öllu staðið. Ekki komust aðrir inn en þeir sem voru með rásnúmer. Merkt var á rásnúmerið svo að sæist að maður hefði farið inn með föt. Fatapokinn var settur til hliðar í sérstakt herbergi og númer fest á rásnúmerið sem þurfti að sýna til að fá fötin afhent aftur.

Síðan var tíminn nýttur í spjall og glens fram að því að farið var að safnast saman hjá rásmarki.

Hlaupið hófst á hetjutorgi Búdapest sem er afar glæsilegt torg með flottum byggingum, minnismerkjum og yfir öllu gnæfir Gabríel erkiengill á hárri súlu. Á þessu torgi fóru fram hersýningar á tímum kommúnismans í Ungverjalandi og þar sýndu sig skriðdrekar Sovétmanna fyrst þegar vorið í Ungverjalandi var barið niður árið 1956.

Skemmtiskokkið var ræst kl. 9.30 eða hálftíma á undan maraþonhlaupurum. Tugir þúsunda tóku þátt í því (10 – 20 þúsund). Kynt var upp með músík og miklu fjöri. Þegar skotið var af stað keyrðu nokkrir trumbuslagarar upp taktinn við markið og héldu honum þar til síðasti maður var farinn í gegn (sem tók svona tíu mínútur). Þá var farið að safna maraþonurum saman en þeir voru um 2200. Skipt var í bása eftir getu, þeir spretthörðustu fyrst (undir 3 klst) og síðan 3 – 3.30, 3.30 – 4.00 o.s.frv. Sérmerktur héri leiddi hvern styrkleikaflokk. Talið var niður og síðan var bæði hleypt úr fallbyssu og skotið á loft flugeldasprengju þannig að það fór ekki fram hjá neinum nærstöddum að hlaupið væri hafið. Samhliða maraþoninu var hlaupið boðhlaup sem var ca 21, 12 og 8 km sem hópur af Íslendingum tók þátt í þannig að það þurfti enginn að vera útundan enda þótt ekki væri hlaupið heilt maraþon.

Það hafði valdið okkur þátttakendum úr norðurhöfum nokkrum áhyggjum að hitinn myndi setja sitt mark á hlaupið og reyndist það rétt fyrir marga. Heiðskýrt var og hitinn fór í 22. – 25 oC þegar hæst lét. Hlaupaleiðin er mjög skemmtileg. Í upphafi var hlaupið niður að Dóná og yfir hana og síðan fram og til baka eftir bökkum hennar, út í Margarétareyjuna og yfir brýrnar sem eru allmargar á þessu svæði. Hluti leiðarinnar var tvíhlaupinn. Drykkjarstöðvar voru á ca 4. km fresti og veitti ekki af því miðað við þann hita sem var meðan á hlaupinu stóð. Afar vel var staðið að öllu á drykkjarstöðvunum, bæði var boðið upp á vatn og Gatorate og skammtarnir vel úti látnir. Einnig voru til reiðu bananar, sítrónur og þrúgusykurtöflur. Einnig voru á hverri drykkjarstöð balar með vatni í þar sem menn gátu ausið vatni yfir sig. Tvisvar eða þrisvar var hlaupið undir úðara þar sem kalt vatn úðaðist yfir hlauparana. Það vakti athygli að allir sem afgreiddu vatn á drykkjarstöðvunum voru með einnota plasthanska þannig að öruggt var að ekki yrði um smitburð eða óhreinindi að ræða af höndum starfsfólks. Brautin er að mestu leyti slétt, einungis var um dálítinn halla um að ræða þegar hlaupið var upp á eða niður af brúnum. Logn var að mestu leyti en þá var svolítill andvari meðfram Dóná, bæði með og móti. Meðfram brautinni var alltaf töluvert slangur af áhorfendum og eins voru af og til hljómsveitir af ýmsum toga sem lífguðu upp á stemminguna. Vel var staðið að allri umgjörð á götunum. Víðast var hlaupið á götum og annað hvort var þeim lokað, eins og breiðgötunni Andrássy, eða að tekin var frá heil akrein fyrir hlaupara. Umferðarmál urðu aldrei til trafala. Þar sem halda þurfti uppi sérstakri gæslu þá var það á höndum lögreglunnar. Einu sinni sá ég að bíll hafði hætt sér inn á svæði sem ætlað var hlaupurum. Honum var snarlega snúið við af lögreglunni. Þetta eru viðbrigði við það sem maður er vanur að sjá heima þegar unglingar eru að reyna að hafa hemil á oftar en ekki tillitslausum og frekum bílstjórum.

Eins og áður sagði var hitinn meiri en maður er vanur heima og að vissu leyti má segja að hitastig á Íslandi er afar heppilegt fyrir maraþonhlaup yfir sumarið (12 – 15 oC) að maður tali ekki um miðnæturhlaup á Mývatni þegar hitinn er 2 oC – 8oC. Ég er vanur að svitna mikið á hlaupum og það stóð ekki á því í þetta sinn eins og vitað var fyrirfram. Á hverri drykkjarstöð eftir 10 km drakk ég tvö vel útilátin glös og veitti ekki af því yfirleitt var maður orðinn skraufþurr þegar að þeirri næstu kom. Ég hafði ekki gert ráð fyrir neinum afrekum í þetta sinn, bæði höfðu æfingar verið af skornum skammti og einnig vissi ég að hitinn yrði erfiður sem reyndist rétt. Ég hélt ágætum hraða miðað við það sem ég hafði sett upp fram að hálfu hlaupi en síðan fóru sporin að þyngjast og skrefin að styttast. Því var ekki annað að gera en að stilla sig inn það sem raunhæft var. Markmiðið var því sett á að rúlla þannig í gegn að maður gengi ekki of nærri sjálfum sér, hefði gaman af hlaupinu og væri sáttur við niðurstöðuna miðað við undirbúning og aðstæður. Allt þetta gekk eftir. Ýmsum reyndist hitinn mjög erfiður en aðrir fóru létt með hlaupið, nokkrir bættu sig, aðrir náðu mjög góðum tíma og enn aðrir hlupu sitt fyrsta maraþon sem hlýtur að hafa verið skemmtileg upplifun við þessar aðstæður. Þegar maður er kominn á um 30 km byrjar sálfræðistríðið eins og vanalega. Þá fer maður að hugsa hvaða leið sé eftir miðað við það sem maður hefur verið að hlaupa í undirbúningnum. Alltaf styttist spottinn og síðan er maður í því að sannfæra sjálfan sig um að maður hafi þetta af sem eftir er, maður hafi hlaupið það svo oft áður heima. Þetta þekkja allir sem hafa hlaupið maraþon. Það var því ósköp notalegt þegar Gabríel sást tróna efst á súlunni í nokkurri fjarlægð og vitað var að það væri stutt eftir.

Í markinu var mikið fjör, músík á fullu og nafn og land hvers og eins kallað upp þegar hlaupararnir runnu yfir línuna. Þetta var ekki einungis fyrir fyrri hluta hlaupsins heldur var þessu haldið áfram þangað til allir voru komnir í mark. Þannig var öllum sýnd jafnmikil virðing í markinu, sama á hvaða tíma þeir hlupu. Í markinu héngu þjóðfánar allra þeirra landa sem áttu þátttakendur í hlaupinu. Setti það skemmtilegan svip á síðustu metrana. Ákveðin lágmarksskilyrði voru sett um tíma á vissum tímapunktum í hlaupinu og rúta safnaði þeim upp sem ekki höfðu náð þeim á hverjum stað. Lágmarkstími sem tekinn var gildur í hlaupinu var 5.30 klst. Þetta var gert til að framkvæmdin myndi ekki dragast úr hófi fram. Læknar voru til staðar á marklínu og kipptu þeim inn í tjald sem voru orðnir ískyggilega hvítir í endamarki eða slöguðu úr hófi fram þegar komið var í mark. Fyrir utan verðlaunapening var manni var afhent plastslá og þungur plastpoki með allskonar drykkjarföngum og góðgæti í. Vegna þess að ég er ekki enn búinn að gleyma veitingunum í mínu fyrsta maraþoni sem var í RM árið 2000 (sem voru blávatn í glasi og orkubiti sem var svo seigur að hann var óætur), þá ætla ég að fara yfir það sem var í pokanum var (og hefst nú talningin):

Gatorate flaska (0,5 l )

Pepsi flaska (0,5 l)

Appelsíndós (0,33 l)

Bjór 5,5% (0,5 l)

Banani

Súkkulaðistykki (100 gr)

Tvöfalt Tvix súkkulaðistykki

Tveir pokar með hnetum og rúsínum

Ískexbiti

Nivea sjampoflaska 200 ml

Poki með þrúgusykri 100 gr

Poki með þurrkuðu tei 75 gr

Tveir orkubitar

Það sem helst var að varast í sambandi við þennan góða og þunga poka var að borða ekki of mikið strax eftir hlaupið, enda þótt maginn kallaði á fyllingu. Þá var hætta á að það leitaði upp aftur. Maraþonhlaupurum var síðan vísað beint á sérstakt grassvæði sem ætlað var hlaupurum til að ná sér eftir hlaupið. Þar var hægt að hvíla sig, safnast saman í hópa, taka myndir og bera saman bækur sínar um framgang hlaupsins (mínútur og sekúndur á hinum ýmsu stigum eins og gengur). Þetta var eins og besta picknick ferð fyrir hópinn, allir voru ánægðir, ýmsir börðust við krampa fyrsta á eftir en teygjuþjónusta nærstaddra lagaði það fljótt. Plastsláin reyndist vel til að liggja á henni og láta sólina baka sig á meðan þreytan leið úr skrokknum. Tímar voru greindir milli manna og taktur hlaupsins, hvar styrkurinn kom í ljós eða hvenær fór að halla undan fæti. Nýliðum var fagnað sérstaklega en allmargir þreyttu sitt fyrsta þon í þetta sinn. Að lokinni hvíld og öllu því sem henni tilheyrði var farið í búningsklefann og náð í fötin. Síðan var farið í baðhúsið og skolað af sér en það er önnur saga og efni í aðra frásögn, enda eru baðhúsin í Búdapest þekkt um alla Evrópu fyrir glæsileika. Þar er ekkert ofsagt.

Að lokum.

Það fór oft milli manna í spjalli eftir hlaupið að ýmislegt gætu framkvæmdaaðilar á Íslandi lært af framkvæmd svona hlaupa eins og lýst er hér að ofan til að hægt væri að gera sig gildandi í alþjóðlegu samhengi. Ég tel hér upp að lokum nokkur atriði sem koma upp í hugann í því sambandi:

1. Götum í Búdapest var alveg lokað þegar hlaupið fór fram. Lögreglan sá um gæslu og hafði allt á hreinu hvað þau mál varðaði. Það er alveg á hreinu að ef við hefðum verið að þvælast um í umferðinni í Búdapest í stórhættu eins og þurfti hér í miklum mæli fram á árið 2001, þá hefðu minningarnar ekki verið eins góðar eins og raun ber vitni. Enn er ýmislegt óunnið í þeim efnum hérlendis enda þótt margt hafi batnað og best af öllu væri að flytja upphaf og endi hlaupsins úr Lækjargötunni í Laugardalinn.

 

2. Upplýsingabæklingur var bæði á ungversku og ensku. Hann var þannig sérstaklega sniðinn að þörfum útlendinga og þeim gert auðvelt með að átta sig á praktiskum aðstæðum. Kort var í bæklingnum sem sýndi hvar átti að sækja upplýsingar og hvar markið var og samgöngukerfinu lýst.

 

3. Mikið var gert úr því að skapa stemmingu við upphaf hlaupsins, meðan á því stóð og við endi þess.

 

4. Aðstæður við hlaupalok og viðurgjörningur við hlaupara var af allt öðrum gæðaflokki en maður þekkir frá RM hérlendis. Slíkt skiptir verulegu máli, bæði þegar er heitt en ekki síður þegar er svalt eins og oft gerist hér.

 

5. Það sem rakið hefur verið hér að ofan skiptir máli að mínu mati þegar Reykjavíkurmaraþon er markaðssett í alþjóðlegu samhengi. Til að standast þá samkeppni verða ákveðin grundvallaratriði að vera á hreinu. Á hinn bóginn hefur verið gert of lítið úr því að því mér finnst að hitastig á Íslandi er oft mjög hentugt fyrir maraþonhlaup, ef menn eru þokkalega heppnir með veður.

 

Færðu inn athugasemd