Félag maraþonhlaupara

Maraþonhlauparar á Íslandi

Jómfrúarþonið 2005

Jungfrau maraþon 2005

Síðastliðið sumar fengum við Solla heimsókn frá svissneskum kunningjum okkar og ferðuðumst með þeim um landið. Við vorum á ferðinni á hálendinu í kringum miðjan júlí og náði ég að sannfæra einn úr hópnum um að hann mætti ekki missa af því að hlaupa með mér Laugaveginn. Hann fékk því lánaða hlaupaskó hjá mér og við fórum af stað. Ég ætla ekki að orðlengja um það en hann kom 10 mínútum á undan mér í mark.

Eftir stórkostlegu upplifun af Laugaveginum okkar fannst honum ekki annað tækt en að ég myndi skrá mig í þeirra “Laugavegshlaup”, þ.e.a.s. Jungfrau marathon, í svissnesku Ölpunum, 10. september 2005. Svisslendingar eru svo stoltir af þessari maraþonbraut að hún hefur fengið undirtitilin “Die schönste Marathonstrecke der Welt!”. Ég gat ekki skorast undan þessu og sótti því um í byrjun janúar 2005. Vegna þrengsla á hluta leiðarinnar og takmarkaðrar flutningsgetu í toglest sem flytur hlaupara og áhorfendur niður af fjallinu komast færri að en vilja. Fjöldatakmarkanirnar hafa verið í kringum 3500 en í ár var markið hækkað í tæplega 4000. Dregið er úr öllum umsóknum sem berast, óháð því hvenær sótt var um. Nöfn þeirra heppnu eru svo birt á heimsíðu hlaupsins 1.mars. Ég var því að vonum ánægður með að sjá að ég var meðal þeirra heppnu. Til vara hafði ég ætlað mér að hlaupa Berlín og bæta tímann í heilu en nú var það ljóst að uppistaða æfinga sumarsins yrðu brekku- og fjallahlaup. Það yrðu engin hraðamet slegin á þessari maraþonleið.

Í byrjun maí, 4. mánuðum fyrir hlaup, fór ég reglubundið að skokka upp Esjuna, einu sinni í viku. Æfingamagnið fór fljótlega frá 70 upp í rúma 100km á viku og í maí urðu 30+ æfingarnar 3 og Esjuhlaupin alls 5. Allt virtist ganga vel þar til í lok maí að ég fór að finna fyrir stífleika í sin í hægri ökkla – sérstaklega eftir tempóæfingar. Ég hafði ekki miklar áhyggjur af þessu og reyndi bara að teygja vel eftir æfingar en hélt annars æfingaplaninu óbreyttu. Ég hefði þó betur mátt slaka aðeins á því 31.maí, í miðri æfingu í Heiðmörk var verkurinn orðinn það slæmur að ég neyddist til að stoppa og ætlaði varla að geta haltrað til baka. Nú var ekkert annað að gera en að hvíla. Ég hafði ætlað mér að æfa stíft í júní en í staðinn fór mánuðurinn að mestu í hvíld með íspoka bundinn um ökklann. Það reyndist ómögulegt að hlaupa og meira að segja var vont að ganga líka.

Þegar líða fór að júlí og batinn var nær enginn ákvað ég að athuga möguleika á annari hreyfingu. Ég prófaði að hjóla og það reyndist vera í lagi ef átakið var ekki of mikið. Félagi minn benti mér svo á möguleika sem ég hafði ekki velt fyrir mér þ.e.a.s. “Deep Water Running”. Ég keypti mér því flotbelti, fann heppilegt 9 vikna æfingaprógramm á netinu, skellti mér í laugina og hóf að stunda DWR af fullum krafti. Prógrammið var stigvaxandi í bæði magni og ákafa en uppistaðan voru interval sett með 90 sekúndna til 5 mínútna sprettum með 30 til 60 sekúndna hvíldum á milli spretta.Til að fylgjast með álagi og skapa nauðsynlegt aðhald var nauðsynlegt að nota púlsmæli á öllum æfingum. Þegar líða tók á prógrammið bættust við langar æfingar sem náðu allt að 2 tímum. Þetta stundaði ég 5-6 sinnum í viku ásamt því að hjóla 2-6 sinnum í viku, oftast tæpa 30km í hvert skipti en stundum lengra. Um það bil einu sinni í hverri viku prófaði ég að skokka/ganga til að athuga hvort meiðslin væru eitthvað að lagast. Í byrjun ágúst var ég enn ekki orðinn góður og fór því að hafa smá áhyggjur af því að kannski tækist mér ekki að koma mér í lag fyrir 10. september. Ég reyndi þó að hrinda þessum hugsunum frá mér og einbeita mér að “sundleikfiminni” og hjólreiðunum.14. ágúst prófaði ég að hlaupa aðeins á bretti en hætti fljólega því ég fann enn fyrir smá verk. 17. ágúst prófaði ég aftur að skokka í 30 mínútur og gekk vel. Ég ákvað því að taka lokatest og skráði mig í 10km í Reykjavíkurmaraþoni. Það gekk sæmilega en ég varð þó að kæla ökklann vel á eftir. Þegar 2 vikur voru fram að hlaupi tók ég rólega langa æfingu í 3 tíma og var fínn á eftir. Nú var sjálfstraustið komið. Þetta yrði ekkert mál. Ég skokkaði samtals tvisvar sinnum dagana fram að hlaupi en hélt þó áfram að hjóla og “hlaupa” í lauginni.

Miðvikudaginn 7. september flugum við Solla til Köben og á fimmtudagsmorgun héldum við áfram til Genfar og gistum hjá kunningja okkar í Lausanne. Á föstudagsmorgun tókum við lest til Interlaken þar sem hlaupið hófst. Interlaken, sem er lítill bær við rætur Alpanna, bar þess skýr merki að þessi helgi yrði tileinkuð hlaupurum. Bærinn var að mestu lokaður fyrir akandi umferð alla helgina. Aðalgatan, Höhematte, var skreytt myndum sigurvegara í karla og kvennaflokki undfarinna 12 Jungfraumaraþona og fánar allra þátttökulanda prýddu rásmarkið. Þegar við komum í bæinn um hádegið á föstudeginum var verið að undirbúa Jungfrau minirun fyrir krakkana og Jungfrau mile fyrir elítu hlaupara þar sem keppt var í karla og kvennaflokki en konurnar fengu 30 sekúndna forskot.

Ég fór niður í morgunmat á hótelinu kl. 6:30 á laugardagsmorguninn. Það var augljóst að aðrir sem mættir voru í morgunmatinn voru líka að fara að hlaupa. Úti var hálfskýjað, hitinn enn ekki nema 16 gráður en rakinn um 90%. Þessi mikli raki olli mér smá áhyggjum en annars var þetta mjög fínt veður. Kynnir hlaupsins tilkynnti að veðurhorfurnar væru góðar. Í hálfu maraþoni, uppi í Lauterbrunnen, væri að líkindum léttskýjað og 22-25 gráður en eftir það færi ört kólnandi. Við endamarkið mætti búast við 5-6 stiga hita og jafnvel rigningu.

Fyrstu 10 km voru á frekar flatri braut umhverfis bæinn Interlaken. Stemningin var góð og fólk lét glymja rækilega í kúabjöllunum sem öðru fremur settu mark á stemninguna. Rakinn var mikill og hitinn fór hratt vaxandi svo ég fór mér mjög hægt. Drykkjarstöðvar voru á 5km fresti upp í ½ maraþon. Eftir 10km lá leiðin út úr bænum í átt að fjallgarðinum. Leiðin lá nú upp í móti í miklum trjágöngum meðfram jökulá sem rennur niður dalinn. Stöku sinnum kom smá kæling frá ánni en annars var þetta mikið svitabað. Heildarhækkun í ½ maraþoni er 306 metrar en lækkunin er 79 metrar. Ég hafði ætlað mér að vera í Lauterbrunnen, í hálfu, á 1:50 en raunin varð 1:54. Eftir Lauterbrunnen tók við flatur kafli þar sem hlaupið var inn djúpan dal með þverhníptum klettaveggjum að því er virtist á 3 vegu. Áhorfendum fór nú ört fækkandi en við tók glamur frá bjöllum sem hengu um háls kúnna sem horfðu makindalega á okkur frá túnunum meðfram hlaupaleiðinni. Nú jók ég hraðann í ca 4:15-4:30 mín/km því ég fann að ég var að fara óþarflega hægt. Ég var greinilega með aðra taktík en fólk í kringum mig því á þessum kafla þaut ég framúr hverjum hlauparanum á fætur öðrum en flestir í kringum mig virtust vera á ca 5mín tempói. Svona gekk þetta upp í rúma 25km en heildarhækkun á þessum kafla, frá ½ maraþoni, er einungis 21 metri og lækkunin 37 metrar. Þetta tók þó snarpann endi við 25.4km. Við blöstu endalausar s-beygjur upp fjallið alla leið upp í rúma 30km. Margir byrjuðu að ganga en ég gekk og skokkaði á ca 6-9mín/km og var enn að taka framúr. Kílómetramerkingarnar voru nú á 250 metra fresti og 2-3km á milli drykkjarstöðva. Heildar hækkun á þessum tæplega 5km kafla er 513 metrar og hallinn því rúm 10%. Ég hugsaði að þetta væri eins og að skokka upp að “Steini” í Esjunni – þó svo að þetta sé aðeins lengra en ekki alveg eins bratt. Ég hafði ætlað mér að hlaupa kaflann frá ½ upp í 30km, í Wengen, á 1:05 en raunin varð 1:02. Allt hafði gengið vel, ég hafði ekki fundið fyrir óþægindum í ökklanum og fór því að naga mig í handarbökin yfir því að hafa ekki farið aðeins hraðar af stað – en þetta var svo sem ekki búið enn. Eftir Wengen tók við tæplega 8km kafli með 595m hækkun og 11m lækkun upp í Wixi Ski-Kassierstation. Þetta tók bærilega á en ég var enn í góðu stuði, tók framúr einum og einum en hleypti fáum framúr mér. Eftir Wixi kom stuttur kafli með 33m lækkun en svo tók við lokakaflinn sem ég á ekki eftir að gleyma. Frá 38.3km upp í 40.6km var hlaupið eftir mjóum hrygg með um 17% meðalhalla – hækkun tæpir 400 metrar. Það var farið að rigna fyrir einhverju síðan en nú fyrst fór ég að taka eftir því þegar ég fór að renna í drullunni og hálum steinunum. Útsýnið var ekki mikið vegna þoku – en ég gerði mér grein fyrir að það væri bratt niður báðum megin því búið var að setja upp kaðla og keðjur á völdum köflum. Nú fóru sporin loks að þyngjast fyrir alvöru og einn og einn fór að skjótast fram úr mér. Eftir rúma 41km var hæsta punkti loks náð – 2205m – eftir það var boðið upp á endasprett með tæplega 130 metra falli alla leið í mark. Ég minnist þess að lappirnar létu ekki alveg að stjórn þegar ég reyndi að spretta úr spori en annars man ég ekki mikið frá þessum síðustu metrum. Ég kláraði þessa 42.185 km með heildarhækkun upp á 1839 metra á 4:50:49,6 og varð númer 1056 af 3835 sem hófu keppni. 191 keppendur luku ekki keppni – náðu ekki að klára fyrir kl 15:30 – 6 ½ tíma eftir start.

Allt skipulag og umgjörð hlaupsins var eins og best verður á kosið. Ég var mikið að spá í hvort ég ætti að taka drykkjarbelti með en eftir á að hyggja er feginn að hafa ekki gert það því það eru yfir 15 drykkjarstöðvar á leiðinni og þjónustan til fyrirmyndar. Allar drykkjarstöðvar voru merktar með skilti u.þ.b. 200 metrum áður en komið var að þeim og boðið var upp á allt mögulegt. Ég lét mér nægja gel sem ég bar á mér og vatn. Þrátt fyrir mikinn fjölda hlaupara og frekar þrönga stíga á köflum reyndist ekki erfitt að taka fram úr. Eftir 25km ættu flestir að vera komnir í þann hóp sem þeir klára með og því kemur það ekki að sök þó erfitt sé að taka framúr á köflum í lok hlaupsins. Jungfrau maraþon er eftirminnilegt hlaup og hvatning frá áhorfendum í þorpunum, sem hlaupið er í gegnum, mikil. Ég mæli eindregið með þessu hlaupi fyrir þá sem hafa áhuga á fjallahlaupum – þó svo að það jafnist kannski ekki alveg á við Laugaveginn okkar.

Alfreð,

Reykjavík, september 2005


Færðu inn athugasemd